Skip to main content

Þeir fóru á Móskarðahnúk í Hnúkaþey

3D mynd af gönguleiðinni (Google Earth!)

Í þetta skiptið voru ofar menn óvenju stórhuga og ásettu sér að þessi ferð skyldi toppa allt sem gert hefur verið til þessa. Svo svakaleg átti ferðin að vera að ákveðið var að taka unglingana ekki með í þetta skiptið.

Eftir að hafa fundað um ferðatilhögun og skoða leiðir, var ákveðið að taka smá rúnt um Esjuna, þar sem menn myndu fyrst hlaupa upp á Móskarðahnjúkana og svo skyldi skokka meðfram toppi Esjunnar upp á Hátind. Svo átti renna sér fimlega niður hlíðarnar til baka. Hæsti punktur í þessari ferð átti að vera Hátindur sjálfur sem er 909m hár og því aðeins 5m lægri en hæsti punktur Esjunnar.

Varðandi nafnið Móskarðahnúkur
Mikið var rætt um eintölu/fleirtölu nafnsins og því velt fram og til baka af hverju þessir hnúkar væru ekki allir saman kallaðir Móskarðahnúkar í stað þess að notuð er eintala. Eftir velting og eftirgrennslan, t.d. á heimsíðu stofnunar Árna Magnússonar, er niðurstaðan sú að allt frá aftari 19 öld hafa þessir hnúkar eða bara austasti hnúkurinn verið kallaður Móskarðshnúkur, Móskarðshnúkar, Móskarðahnúkur, Móskarðahnúkar, Móskörð og jafnvel fleira. Líklega er ekkert eitt rétt í þessu frekar en mörgu öðru! Okkur finnst þó Móskarðahnúkar eiga best við þar sem bæði er um að ræða mörg skörð og marga hnúka.


Göngusvæðið í panorama

Það var enn vottur af votum kosningaskjálfta í ónefndum aðilum þegar af stað var lagt, en menn hörkuðu það bara af sér eins og að drekka vatn. Áður en lagt var af stað heyrðist í Lóum og Hrossagaukum og því mikil vorandi yfir vötnunum. Samkvæmt áætlun skyldi ekið upp með Gljúfrasteini og svo beygt á fyrsta afleggjara til norðurs og var það gert á Coltinum ágæta hans Andrésar. Sá vegur liggur að Hrafnhólum og svo inn í sumarhúsabyggð í hlíðum Esjunnar þar sem átti að byrja gönguna. Eins og stundum áður fóru málin ekki eins og til stóð, því menn sáu a.m.k. 100m langan skafl yfir veginum eftir að komið var að Hrafnhólum. Reyndar sást önnur leið yfir tún bæjarins, en menn sáu fyrir sér að það myndi enda í drulluglímu við að losa bílinn úr rennblautu túninu. Sennilega höfðu ógöngur okkar á Hengli áhrif á þá svartsýni. Á hinum ágætu kortum ja.is sást að hægt er að komast að bílastæðinu með því að aka upp með Esjunni frá Esjumelum, upp með Kistufelli á vinstri hönd og Leirdalsá á hægri hönd. Vegurinn reyndist vera síðri en mátti búast við af kortinu, þar sem hann reyndist taka sér það hlutverk að vera árfarvegur í leysingum á vorin. Örlítið uggvænlegt var að rekast á að svæði sem við ókum hjá var lokað fyrir umgangi vegna sýkingarhættu, en það reyndist ekki vera stórt. Andrés komst í rallgírinn og dró hratt uppi Land Cruiser jeppa sem virtist fara frekar hægt yfir vegslóðann, en svo kom áfallið, þegar kom í ljós að lengra varð ekki komist á Coltinum. Vegurinn varð of erfiður yfirferðar allt í einu. Valið stóð því um að ganga af stað frá þeim stað eða fara annan hring til fyrri leiðar og ganga þaðan. Það þótti ekki fært, og því var göngubúnaðnum skellt á bak og hendur og lagt af stað. Leiðin að upphafspunktinum reyndist nokkuð löng, eða um 4 kílómetrar og þurftum við að leita nokkuð lengi að leið yfir Þverá sem bauð ekki upp á marga staði til að komast yfir. Þegar nærri dró upphafspunktinum sem var í sumarbústaðabyggðinni sem er inn af Hrafnhólum tókst loks að komast yfir..

Stiklað á steinum eins og ballerínur

... og við fundum bílastæðið sem hefur verið notað til að leggja bílum meðan farið er á fjallið. Okkur til nokkurrar furðu (og ekki mikillar ánægju) reyndist bílastæðið vera nánast fullt af venjulegum fólksbílum og því greinilegt að ekki hefði verið erfitt að aka yfir túnið sem við hræddumst svo. Næsta verk var að fá Garmin Leiðsöguúrið til að samþykkja staðinn sem upphafspunkt, til að hægt yrði að láta það leiðbeina okkur upp fjallið. Það var skemmtilegt að uppgötva að við hefðum getað sleppt því að fara yfir Þverána því að nú fórum við aftur yfir ána um litla brú smíðaða úr tveimum símstaurum og nokkrum fjölum. Nú reyndist tæknin vera að stríða okkur tæknimönnunum því úrið "fraus" bara þegar það fann leiðina. Eftir nokkrar tilraunir fékk Andrés "viðmótssérfræðingur" að spreyta sig á vandamálinu og fór létt með að endurræsa úrið.... gott á okkur tæknimennina!

Jæja, nú dugði ekkert annað en að drífa sig upp fjallið, enda kominn tími til, því að nú voru þegar 4km að baki! Uppgangan gekk bara vel og tóku menn sér hlé reglulega til að anda út kosningaandanum og inn súrefnisríku fjallaloftinu. Fyrst var farið austan megin í Bláhnúk og þegar þangað var komið sást greinilega stígur utan í Móskarðahnúkunum, alla leið upp á topp. Þegar þarna var komið við sögu mættum við um 10 manna hóp sem kastað var kveðju á og tók einn af þeim hóp sig til og bauð Sveini og Andrési í 25 ára grunnskóla "reunion". Ekkert verri staður til að ganga frá slíku en annars staðar. Upp var gengið skáhalt utan í hlíðinni og að lokum staðnæmdumst við í söðulpunkti milli hnúkanna. Nú var svo komið að jörðin var snævi þakin og síðustu 100 metrarnir voru brattir og hrein snjóganga. Toppinum var nú loksins náð og myndavélar mundaðar og reynt að skrifa í gestabókina, sem reyndist vera rennblaut. Nú höfðum við bætt fyrri hæðarmet um 20m (já já ekki mikið .... en samt!). Nú átti "bara" eftir að þræða hnúkana einn af öðrum í vesturátt, áður en við kæmum að Hátindi og myndum svo renna okkur niður að bílnum. Áður en lengra var haldið var skálað í eðal Single Malt Viskí og nokkrum samlokum rennt niður með kakói. Það leyndi sér ekki þegar hér var komið að Júlli lipurtá var orðinn ansi svangur og endaði máltíðin þannig að hann fékk bróðurlegan skammt af máltíðinni.... en ekkert Víski þó! Jæja, nú átti þetta bara að verða "göngutúr í garði" þar sem nokkrir smátindar voru framundan áður en komið yrði að Hátindi.

Á leiðinni niður af fyrsta hnúk tóku menn upp fyrri iðju við að renna sér niður í snjónum..... alltaf jafn gaman hjá þessum fertugu strákum!



Sveinn og Andrés renna sér faglega.... Hvað kom fyrir Andrés?

Héðan var svo gengið upp.... og niður.... og upp.... og niður... og upp... og niður, hvern hnúkinn á eftir öðrum. Júlli kappi var ekki að átta sig alveg á því að eftir endilöngum hnúkunum var snjóhengja sem gat auðveldlega brotnað undan honum. Það reyndi nokkuð á raddböndin að kalla á hann þegar hann komst út á "hálan ís" en þetta slapp nú alveg. Uppi á hverjum hnúk var íhugað hvort lengra yrði farið með færið í huga. Einhver sagði "göngum aðeins lengra og þá sjáum við betur" í hvert sinn og afleiðingin varð sú að við kláruðum hnúkana, einn af öðrum og fórum loks að ganga inn ofan við Þverárdal. Það birtist okkur gönguslóð sem við reyndum að fylgja til norðurs sem við gengum rösklega þar til að........

Er þetta ekki svolítið skrýtin íslenska? (líkara þýddri ensku, ekki satt?)

Já, Ferðafélag íslands hafði lagt stíg með köðlum á nokkrum stöðum um klettabelti sem þurfti að fara yfir. Því miður var þessi leið ekki fær í vetrarfærð! Já örlögin geta kippt í spottana og komið í veg fyrir að stórkostleg plön verði að raunveruleika..... En við höfðum nú áorkað ýmislegu sem við gátum nú verið ánægðir með og nú var ekkert annað í boði en að hefja gönguna niður af fjalli. Sennilega voru þessi upphafleg plön okkar í bjartsýnni kantinum því að á leiðinni til baka fóru menn að finna fyrir því að skrokkarnir voru ekki alveg jafn sprækir og menn bjuggust við og olli það mikilli furðu, enda ungmennahreyfing á ferðinni en ekki einhverjir gamlingjar.... eða hvað?

Niðurleiðin breyttist úr niðurgöngu í niðurrennerí, því reynt var að leita upp alla skafla sem hægt var að renna sér niður til að spara sér sporin, og undir lokin þurfti ekki nema 3-4 háa skafla til að menn skelltu sér og bossann. Förin eftir afturenda hópsins sjást sennilega ágætlega í sæmilegum sjónauka frá Reykjavík. Þegar komið var í botn Þverárdal var stefnan tekin stystu leið, þráðbeint á bílinn og ekki vikið af þeim kúrs nema í ítrustu neyð til að forðast óþarfa vegalendir. Mikið var pælt í því hvort við værum þreyttari en eftir hengilsferðina svo var reynt að nota hlutfallareikning í þeim pælingum, því að við áttum jú að vera komnir í betra form. Aftur varð niðurstaðan sú að við vorum að standa okkur vel, því nú höfðum við farið þó nokkuð hærra en í Henglinum en auk þess gengið um 16km sem er nú ekki slæmt. Þegar að bílnum var komið lögðust menn á jörðina í sólbað........... þreytan hafði ekkert með það að gera.

Því miður var ekki farið á kaffihús og góðri ferð fagnað í þetta skiptið, heldur var farið í Bónus að kaupa hundamat handa Júlla... enda var hann alveg búinn á því og átti það alveg skil að fá góða máltíð.

Leiðin sem við ætluðum að fara


Leiðin sem við fórum


Nokkuð hátt - hæsta sem við höfum farið


Hnúkarnir 5 sem gengið var upp og niður


Reynt að krossa Þverá - gekk ekki þarna!


Andrés á toppnum


Horft eftir toppunum að Hátindi


Slakað á fótunum


Horft til baka frá síðasta toppnum


Lína í snjó eftir rassa Ofar hópsins


Þar sem við stoppuðum og horfðum yfir Laufskörð


Leiðin sem við náðum ekki að ganga


Gönguleiðin í 3D

Comments

Popular posts from this blog

Lali og Reykjaborg

Stutt gönguæfing var tekin 1. júlí sem liður í undirbúningi fyrir Leggjabrjót sem stefnt er á að ganga um helgina. Mættir voru 2 garpar úr klúbbnum að þessu sinni, Andrés og Sveinn. Júlli gönguhundur er í sjúkraleyfi og Alfreð var löglega afsakaður vegna vinnutarnar. Mynd fengin af www.ja.is/kortavefur Lagt var af stað frá malarstæði við húsið Hvoll rétt við Reykir og Suður-Reykir í botni Mosfellsbæjar og gengið eftir hestastíg meðfram Uxamýri. Síðan var beygt snarlega af leið og haldið upp á Hádegisfell og þaðan yfir Borgardal og stefnan tekin á hnúkinn Lala (244 m). Gott útsýni er af honum yfir sveit og byggð og gaman að koma á nýja staði og sjá hlutina í allt öðru og nýju ljósi. Eftir stutt stopp og spjall var gengið í átt að Bjarnarvatni og beygt upp á Reykjaborg. Þegar hér var komið var langt liðið á kvöld og því ákveðið að menn væru í góðu formi fyrir Leggjabrjótinn. Því var tekin bein lína í átt að Mosfellsbæ og gengið að bílastæðinu. Engin var tekin kaffistofan enda fáliðað í

Að leggja, Vörðuskeggja!

Sunnudaginn 10. maí var lagt af stað frá Grafarvoginum áleiðis upp á Hafravatn þaðan sem leið lá á Nesjavallaveg áleiðis í Dyradal. Nú skyldi tekið á því og Vörðuskeggi kláraður enda sat það enn í félagsmönnum OFAR þegar að frá varð að hverfa þegar reynt var við hann í febrúar síðastliðnum. Mikil stemming var í hópnum enda 4 meðlimurinn, Birgir, mættur á svæðið í sína fyrstu ferð með klúbbnum og að auki voru Ellen og Stefnir líka með og auðvitað Júlli fjallagarpur. Veður var ágætt á láglendi þegar á bílastæðið við Dyradal var komið en þungbúið og hálfsvalt yfir og skýjað í fjalli þannig að göngufólk klæddi sig vel upp áður lagt yrði af stað. Síðan var strikið tekið yfir veginn og haldið af stað í áttina að Vörðuskeggja. Ekki var löng ganga að baki þegar að Andrés fann „…höfuð af hrúti, hrygg og gæruskinn“ eins og segir í laginu um krumma kallinn og krunkaði hann á hina göngugarpana til að skoða gripinn. Voru teknar myndir í minningarbókina um fallin félaga í fjallaferðum enda íslenskar

Nú var farið í keilu, nei fyrirgefið, á Keilir!

3D mynd af gönguleiðinni ( Google Earth! ) Þessi ferð var með öðru sniði en hinar 4 sem meðlimir gönguklúbbsins höfðu farið áður. Að þessu sinni var ákveðið að gera þetta að nokkurs konar fjölskylduferð. Ellen, Þorgerður Erla, Gunnhildur og Stefnir ætluðu nú að koma með okkur og að sjálfsögðu Júlli garpur og var búið að ákveða að fara á Keilir á Reykjanesinu. Það er sem sagt keilulaga fjallið sem blasir við þegar maður er á fleygiferð eftir Reykjanesbrautinni, oftast á leið úr landi eða á heimleið eftir reisu til „útlandsins“. Því miður var Stefnir veikur og komst ekki með að þessu sinni. Góð stór "svindl" panoramamynd af Keili, tekin af Andrési: Nú var ákveðið að úrið hans Alfreds réði för enda hafði hann niðurhalað GPS gönguleið sem hann hafði fundið á netinu (þessi leið er í boði Leifs Hákonarson og finnst á Wikiloc.com: Takk Leifur!): Þegar búið var að smala saman öllu liðinu rúmlega kl. 09.00 var haldið sem leið lá á Reykjanesbrautina. Þegar keyrt var framhjá Kúagerði