Skip to main content

Staðið á tindi fjallsins Tindstaðafjalls

3D mynd af gönguleiðinni (Google Earth!)

Skírdagur rann upp og nýr göngudagur framundan. Stefnan var nú tekin á Tindstaðafjall sem er í mynni Hvalfjarðar, á „bakvið“ Esjuna þegar horft er frá höfuðborginni. Við vorum búnir að fresta þessari ferð einu sinni vegna slæmrar veðurspár en nú var brostið á með glampandi sól löngu áður en haninn á Árbæjarsafni gat sagt „Sæll“ við hænurnar og vakið þær af værum blundi með góðu gali!

Alfreð, Andrés, Sveinn og Stefnir, og að sjálfsögðu garpurinn Júlli, voru komnir af stað rétt rúmlega 9 um morguninn og stefnan tekin á Kjalarnesið. Þegar þangað kom var stöðvað á vigtarplaninu við afleggjarann að Melavöllum og spáð og spekúlerað um áætlaða gönguferð. Spurning var um að ganga fyrir endann á Esjunni og upp með Blikdalsá og þaðan upp en við nánari skoðun var ákveðið að keyra sem leið upp í Miðdal sem er norðanmegin við Esjuna og skoða aðstæður þeim megin frá.


Þegar við komum inn að Innri Tindstöðum stoppuðum við á litlu malarplani við veginn þar sem haugur af heyrúllum var geymdur á og þar var gönguleiðin skipulögð upp á fjallið. Ekki var farið eftir neinni sérstakri gönguleið sem aðrir höfðu farið áður, þ.e. náð í GPS skrá til að fara eftir, enda engin skrá til, heldur var nú farið eftir innsæi og „reynslu“ göngumanna í svaðilförum og fyrri gönguferðum! Sem betur fer reyndist dómgreind okkar nokkuð lunkinn því þegar á fyrstu 200 metrunum kom í ljós að við höfðum veðjan á réttan rampa til að fara upp með.
Um miðja leið var áð og nesti dregið upp. Ýmissa „grasa“ leyndist í mal ferðamanna eins og Hámarksdrykkir, kleinur, KitKat, heitt kakó (með og án „marsmallows“) auk vatns og samlokna og kex ofl. ofl. Mætti halda að við værum að leið til vikudvalar á Skessuhorni! Þegar þarna var við sögu komið var svo heitt í sólinni að menn fækkuðu klæðum og stóðu á bolnum einum fata með sólgleraugu á nefinu og litu út eins og þeir væru á ströndum Miami í miðjum Vice þætti en ekki í fjallshlíðum eyju á miðju Norður-Atlantshafi.


Þegar við vorum hálfnaðir á fjallið komum við upp á nokkuð sléttlendi sem lá að seinni hluta fjallsins upp að topp. Þarna blasti við okkur nokkuð sérstök sýn, nefnilega spor í snjónum sem leið lá upp á fjallstopp og tilbaka aftur. Það sérstaka við þetta var að þetta voru spor eru líktust mest hundssporum. Engin önnur spor lágu með þeim svo að ekki gátu þetta verið aðrir ferðalangar með hundinn sinn. Eftir að ýmsum hugmyndum hafði verið kastað á loft var helst haldið, og vegna þess að sporin voru aðeins minni en sporin eftir Júlla og miðað hversu gífurlegan áhuga hann hafði á þeim, hann hreinlega rakti þau eins og sporhundur eins langt og augað eygði fram og tilbaka um fjallið, að þarna væri um ref að ræða. Var það? Við vorum ekki vissir. Hin hugmyndin var aðeins langsóttari, kannski hafði Lúkas týnst á ný!?
Brátt eygðum við toppinn og bros færðust yfir rauðnefjuð andlitin enda hafði kulað aðeins er ofar færðist og nepjunæðingur farinn að blása um okkur. Við skelltum okkur í meiri hlífðarfatnað og skelltum okkur síðustu metrana. Þegar að upp var komið gengum við nokkuð stóran hring á toppnum og skoðuðum útsýnið bæði til suðurs og norðurs og fögur var fjallasýnin.
Eftir að hafa spókað okkur umá toppnum, tekið myndir og vídeó eins og hefð er fyrir þá var komið að niðurleiðinni.




Hún var ekki alveg sú sama og farin var upp heldur skellti Andrés sér á rassinn og renndi sér ansi góða salibunu niður efri hluta fjallsins niður á sléttlendið þar sem meintur refur ku hafa farið um. Reyndu hinir ferðalangarnir þetta með misjöfnum árangri en engin komst eins neðarlega og Andrés. Ekki er laust að viðkomandi hafi gengið í smá barndóm við þessa bráðskemmtilegu iðju! En eins og ávallt er haldið fram, það sem fer upp kemur niður aftur og ekki vorum við neinar undantekningar að því leyti og fljótt komum við að bílnum aftur. Fyrir ofan okkur blasti enn einn „unninn“ áfanginn, að þessu sinni Tindstaðafjallið.

P.s. Svo var brunað í Mosfellsbakarí og skellt í sig sérlöguðu eðalkaffi og smá góðgæti með til að halda upp á velheppnaða ferð.

Að góðri hefð fylgir svo ein staka með:

Tindstaðabeljurnar baula ekki meira…
því bærinn er í eyði lagður og það gerist ekki fleira.
En göngugarpar mættu glaðir, og upp á fjallið fóru
æfa sig sem allra mest, fyrir fjöllin stóru!

Upp á topp þeir skelltu sér, og skemmtu sér hið besta.
Yfir suðvesturhornið þeir, í sólu sáu allt hið flesta.
Á botninum svo renndu sér og hlógu eins og krakkar…
Sá er þetta ritar, til næstu ferðar hlakkar!



Myndir og vídeó frá Sveini, bætt við af Alfred:



Undirbúningurinn minnir mest á mótmælanda :-)


"Svindlmynd" af Tindstaðafjalli í öllum sínum skrúða:


Þrír vaskir í snjónum; Stefnir, Alfred og Andrés:


Sporin léttu:


Enn ein "svindlmyndin", nú hópmynd á hinum flata toppi !!! Hver var ekki á myndinni??!?!:


GPS-Mynd sem sýnir leiðina sem farin var uppá topp:


Hæðarmynd - þetta voru einir 796 metra hæð.
Hæsta sem við höfum farið, jibbídajei:



Gönguleiðin:

Comments

Flott blogg.... Virkar bara vel að gera þetta svona saman :-)

Popular posts from this blog

Lali og Reykjaborg

Stutt gönguæfing var tekin 1. júlí sem liður í undirbúningi fyrir Leggjabrjót sem stefnt er á að ganga um helgina. Mættir voru 2 garpar úr klúbbnum að þessu sinni, Andrés og Sveinn. Júlli gönguhundur er í sjúkraleyfi og Alfreð var löglega afsakaður vegna vinnutarnar. Mynd fengin af www.ja.is/kortavefur Lagt var af stað frá malarstæði við húsið Hvoll rétt við Reykir og Suður-Reykir í botni Mosfellsbæjar og gengið eftir hestastíg meðfram Uxamýri. Síðan var beygt snarlega af leið og haldið upp á Hádegisfell og þaðan yfir Borgardal og stefnan tekin á hnúkinn Lala (244 m). Gott útsýni er af honum yfir sveit og byggð og gaman að koma á nýja staði og sjá hlutina í allt öðru og nýju ljósi. Eftir stutt stopp og spjall var gengið í átt að Bjarnarvatni og beygt upp á Reykjaborg. Þegar hér var komið var langt liðið á kvöld og því ákveðið að menn væru í góðu formi fyrir Leggjabrjótinn. Því var tekin bein lína í átt að Mosfellsbæ og gengið að bílastæðinu. Engin var tekin kaffistofan enda fáliðað í

Að leggja, Vörðuskeggja!

Sunnudaginn 10. maí var lagt af stað frá Grafarvoginum áleiðis upp á Hafravatn þaðan sem leið lá á Nesjavallaveg áleiðis í Dyradal. Nú skyldi tekið á því og Vörðuskeggi kláraður enda sat það enn í félagsmönnum OFAR þegar að frá varð að hverfa þegar reynt var við hann í febrúar síðastliðnum. Mikil stemming var í hópnum enda 4 meðlimurinn, Birgir, mættur á svæðið í sína fyrstu ferð með klúbbnum og að auki voru Ellen og Stefnir líka með og auðvitað Júlli fjallagarpur. Veður var ágætt á láglendi þegar á bílastæðið við Dyradal var komið en þungbúið og hálfsvalt yfir og skýjað í fjalli þannig að göngufólk klæddi sig vel upp áður lagt yrði af stað. Síðan var strikið tekið yfir veginn og haldið af stað í áttina að Vörðuskeggja. Ekki var löng ganga að baki þegar að Andrés fann „…höfuð af hrúti, hrygg og gæruskinn“ eins og segir í laginu um krumma kallinn og krunkaði hann á hina göngugarpana til að skoða gripinn. Voru teknar myndir í minningarbókina um fallin félaga í fjallaferðum enda íslenskar

Hvellir við Hvalfell

VIÐBÓT 1.12.2009 : FLEIRI MYNDIR ÚR FERÐINNI HÉR! Ætlunin hafði verið að fara yfir Skarðsheiðina og upp á Skessuhorn þessa helgina en sökum forfalla í Gönguklúbbnum Ofar var ákveðið að fresta því til betri tíðar. Í staðinn var ákveðið að nota hið góða veður sem spáð hafði verið (og stóðst líka svona vel) og skella sér þess í stað upp á Glym og þaðan upp á Hvalfellið . Að þessu sinni voru það Andrés, Alfreð og Reynir sem hittust á formlegum mótstað klúbbsins í Grafarvogi og var lagt af stað kl. 09.07 stundvíslega áleiðis í Hvalfjörðinn. Þar var áð stuttlega í sumarbústað hvar Júlli nokkur ferfætlingur lá í mestu makindum og hafði það huggulegt. Nú skyldi garpurinn fá að koma með og spretta úr spori. Veglegt morgunverðarhlaðborð beið ferðalanganna og var tekið hraustlega til matar og skellt í sig kaffifant eða tveim enda veitti ekki af allri orku fyrir ferðina. Eftir góðar trakteringar var brunað í botn Hvalfjarðar og bílnum lagt á bílastæðinu við bæinn Stóra Botn. Þaðan var lagt