Skip to main content

Að leggja, Vörðuskeggja!

Sunnudaginn 10. maí var lagt af stað frá Grafarvoginum áleiðis upp á Hafravatn þaðan sem leið lá á Nesjavallaveg áleiðis í Dyradal. Nú skyldi tekið á því og Vörðuskeggi kláraður enda sat það enn í félagsmönnum OFAR þegar að frá varð að hverfa þegar reynt var við hann í febrúar síðastliðnum. Mikil stemming var í hópnum enda 4 meðlimurinn, Birgir, mættur á svæðið í sína fyrstu ferð með klúbbnum og að auki voru Ellen og Stefnir líka með og auðvitað Júlli fjallagarpur.

Veður var ágætt á láglendi þegar á bílastæðið við Dyradal var komið en þungbúið og hálfsvalt yfir og skýjað í fjalli þannig að göngufólk klæddi sig vel upp áður lagt yrði af stað. Síðan var strikið tekið yfir veginn og haldið af stað í áttina að Vörðuskeggja.

Ekki var löng ganga að baki þegar að Andrés fann „…höfuð af hrúti, hrygg og gæruskinn“ eins og segir í laginu um krumma kallinn og krunkaði hann á hina göngugarpana til að skoða gripinn. Voru teknar myndir í minningarbókina um fallin félaga í fjallaferðum enda íslenskar kindur annálaðar fyrir fjallaklifur og fima fætur í oft hrikalegri náttúru landsins. Eftir hina hefðbundnu kindakæfu…nei, fyrirgefið, kindakveðju var svo áfram haldið.

Gengið var inn Dyradal og upp á hrygg sem skilur dalinn að við Skeggjadal. Fyrir ofan Skeggjadal er svo Vörðuskeggi sem gnæfir yfir hrikalegur að sjá. Þegar að rótum Vörðuskeggja var komið mátti sjá að töluverður snjór var í hlíðum hans og var tilkomumikið að sjá klettavegginn slúta yfir gönguhópnum þegar nær dró og skýjaslæðuna liggja eins og huliðshjálm eftir efri hluta toppsins.
Við gengum upp að klettabeltinu og meðfram því vinstra megin. Vindur var farinn að bíta aðeins meira í þarna og þegar að síðustu 100 metrarnir voru farnir skall á okkur hríðarbylur og ofankoma. En nú skyldi ekki aftur snúið og kjökra um að allt væri búið enn á ný heldur spýta í lófana og grípa fastar um göngustafina og berjast áfram, skref fyrir skref. Þegar að við höfðum gengið skáhallt í kringum Vörðuskeggja og ávallt örlítið upp á við í hverju skrefi, vorum við komin hinum megin að toppnum miðað við Dyradal og þaðan komumst við á toppinn. Snjórinn gerði það auðveldara að feta sig upp því ekkert betra er að klöngrast upp lausamöl og grjót þegar að auð er jörð.

Á toppnum sáum við hólk í miðri vörðunni en þegar að betur var að gáð var engin gestabókin. Því var tekin mynd af hólknum til að sanna tilvist okkar á endapunktinum! Þarna uppi var ansi hvasst og var því ákveðið að kúra bak við háan klett til að skýla sér á meðan meðlimir myndu maula nestið sitt. Slíkur var veðurhamurinn!

Nei, kannski ekki alveg en ansi hvass var hann og kaldur. Byrjuðum við gömlu mennirnir á að skála í „toppfara“ pyttlunni og ekki er laust við að örlítill hitavottur hafi hríslast um kalda búkana þegar að ljúfur mjöðurinn rann niður, enda gekk pyttlan tvo hringi að þessu sinni! Vörðuskeggi var lagður! Birgir sagði okkur líka góða sögu af dóttir sinni sem fór með uppáhaldsbókina sína í skólann, "101 Hafnfirðingabrandarar" og las upp úr henni um hafnfirðinginn sem fór í manndómsvígslu til Grænlands, og viðbrögð kennarans við því. Hlógum við mikið af þeirri frásögn.

Þegar að allir voru orðnir saddir og sælir meira að segja Júlli, sem fékk eðalharðfisk og hálfa rækjusamloku, var ákveðið að snúa heim á leið. Þarna kom kostur þess að hafa hlíðarnar snjóþungar því að við renndum okkur á rassinum langleiðina niður af karlinum og höfðum gaman að. Svo fljótt vorum við komin niður að Skeggjadal að ákveðið var að taka smá hliðartúr í bakaleiðinni og klífa „Mount Doom“, sem er klettatoppur á hryggnum á milli Þjófahlaups og Dyradals.

Gengið var eftir slóð sem að lá frá Vörðuskeggja og síðan skellt sér á toppinn á „Doom“-inu svona rétt til að kitla hégómagirndina og geta sagt að þetta hafi verið tveggja tinda ferð! :O)

Eftir smá klöngur niður hlíðar "Doom"-sins til að komast ofan í Dyradal af hryggnum, þar sem þó náðist ein salibuna á rassinum í viðbót, var gengið í átt að bílunum. Þegar þangað var komið var göngufólk orðið gegnblautt og ansi hrakið þannig að ákveðið var að enda ferðina á hlýjum drykk. Brunað var því að Rauðavatni í OLÍS skálann í kvöldkaffi og kleinu og góð gönguferð kvödd þegar að kl. var rétt gengin í 22.00.

Fleiri myndir af ferðinni:

Klakabönd á klettanibbum á toppi Vörðuskeggja.

Huliðshjálmurinn yfir Vörðuskeggja.

Horft niður að Þjófadal.

Júlli fékk harðfisk og sleikti alveg út um!

Toppnum náð og fangað að hætti OFAR manna!

Í lokin fylgir vísa eftir fjallaskáldið, nei ekki Kristján hin eina sanna, heldur meðlim gönguklúbbsins OFAR:

Vörðuskeggi

Nú skal til fjalla halda
og öllu nú mun tjalda!
Eigi skal hann, nú mig buga
heldur skal drepast eða duga.

Rigning, rok og ískalt él
ekkert á mig bítur,
frekar mun ég ganga í hel
fyrr en í grasi lýtur.

Skal ég upp á Vörðu Skeggja,
ekki skal hann mig nú leggja!

Komst á toppinn, stoltur var.
Af öðrum ferðum þessi bar.
Nú aldrei gefast upp, ég skal,
Ávallt sigra, hvern fjallasal.

Þig ég lagði, í dag,
þig ég lagði, Skeggi!

Comments

Alfred said…
Brilljant texti!

Popular posts from this blog

Lali og Reykjaborg

Stutt gönguæfing var tekin 1. júlí sem liður í undirbúningi fyrir Leggjabrjót sem stefnt er á að ganga um helgina. Mættir voru 2 garpar úr klúbbnum að þessu sinni, Andrés og Sveinn. Júlli gönguhundur er í sjúkraleyfi og Alfreð var löglega afsakaður vegna vinnutarnar. Mynd fengin af www.ja.is/kortavefur Lagt var af stað frá malarstæði við húsið Hvoll rétt við Reykir og Suður-Reykir í botni Mosfellsbæjar og gengið eftir hestastíg meðfram Uxamýri. Síðan var beygt snarlega af leið og haldið upp á Hádegisfell og þaðan yfir Borgardal og stefnan tekin á hnúkinn Lala (244 m). Gott útsýni er af honum yfir sveit og byggð og gaman að koma á nýja staði og sjá hlutina í allt öðru og nýju ljósi. Eftir stutt stopp og spjall var gengið í átt að Bjarnarvatni og beygt upp á Reykjaborg. Þegar hér var komið var langt liðið á kvöld og því ákveðið að menn væru í góðu formi fyrir Leggjabrjótinn. Því var tekin bein lína í átt að Mosfellsbæ og gengið að bílastæðinu. Engin var tekin kaffistofan enda fáliðað í

Gengið á Vífilsfell í blíðskaparveðri

3D mynd af gönguleiðinni ( Google Earth! ) Gönguhópurinn Ofar tók sig saman og gekk á Vífislfellið í dag. Í för voru Sveinn, Andrés, Alfred og Júlli kallinn - en þetta er allir meðlimir félagsins eins og er. Fleiri vinir höfðu verið kallaðir til en náðu ekki á fætur áður en lagt var í'ann. Enda var lagt á stað eldsnemma eða um 10 leitið ofan úr Breiðholti :-) Andrés, Sveinn og Júlli í pásu á leiðinni upp : Keyrt var úr bænum á forláta Mitsubishi Colt í eigu Andrésar. Bensínið í botn og þrusað í suðaustur átt þar sem við vissum að við ættum að beygja til hægri næstu beygju eftir Bláfjallarafleggjaranum. En þegar þangað var komið vorum við samt ekki vissir um hvort við værum á réttum stað - sumir þóttust þekkja LÍV-R skiltið og að þar með hlytum við að vera á réttum stað :-) Við keyrðum áfram eftir afleggjaranum og Coltinn stóð sig eins og hetja þótt dálítill snjór væri á veginum. Þegar í námurnar við enda afleggjarans var komið ákváðum við að snúa við og finna besta staðinn til að