Skip to main content

Í hæstu hæðum á Hátindi











Jahú!! Loksins var komið að því að Gönguklúbburinn OFAR færi í sína fyrstu formlegu gönguferð árið 2010. Ekki ráð nema í tíma sé tekið, árið farið að síga á seinni hlutann J. Ákveðið var að taka smá upphitunargöngu fyrir frekari landvinninga ársins og stefnan tekin á Esjuna, nánar tiltekið á Hátind, sem eitt sinn var talinn hæsti tindur Esjunnar (909 m) en síðar var bungan, sem ber nafnið Hábunga, ofan Gunnlaugsskarðs mæld 914 m.

Fyrir þá sem ekki vita að þá er í Kjalnesinga sögu talað um bæinn Esjuberg þar sem landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson bjó þegar hann kom til Íslands frá Suðureyjum í Skotlandi. Í sögunni er sagt frá því að írsk kona að nafni Esja hafi komið í Kollafjörð og hafa menn þá leitt að því líkur að nafnið sé írskt að uppruna. Sennilegri skýring er þó að orðið sé komið úr norrænu, en það er meðal annars þekkt í Noregi, og merkir „flögusteinn“.

Esjan er syðsta blágrýtisfjall á Íslandi. Esjan og berggrunnurinn undir Reykjavík, Mosfellssveit og Kjós myndaðist í gosbeltinu sem nú liggur frá Reykjanestá um Þingvallasveit og norður í Langjökul. Í Esju, á svæðinu frá Hvalfirði og austur fyrir Skálafell í Kjalarneshreppi, var eldvirknin stöðug í rúmlega eina milljón ára frá því fyrir um 2,8 milljón árum. Á þessum tíma voru að minnsta kosti 10 jökulskeið með hlýskeiðum á milli. Esjan myndaðist vestan til í gosbeltinu og ýttist smám saman frá því til vesturs. Rekhraðinn til vesturs frá flekaskilunum, sem nú liggja um Þingvallasveit, hefur um milljónir ára verið um einn cm á ári, enda stendur heima að vesturendi Esju er um 30 km norðvestan við vestustu virku sprungurnar (gjárnar) á Þingvöllum og í Hengli. Á sama tíma og berggrunnurinn undir Reykjavík, Mosfellssveit og Kjós var að myndast vestan til í gosbeltinu var berggrunnurinn undir Selfossi og Hreppum að myndast austan til í því. Auðvelt er að fá nútímasamlíkingu á Reykjanesskaga með því að hugsa sér að berggrunnurinn undir Reykjavík sé að myndast í Trölladyngju og Sveifluhálsi vestan við Kleifarvatn, og berggrunnurinn undir Selfossi framtíðarinnar sé að myndast í eldstöðvum milli Kleifarvatns og Herdísarvíkur. (Heimild: Vísindavefurinn).

En nóg um sagnfræðina. Snúum okkur að sjálfri göngunni. Við keyrðum sem leið lá í átt að Kollafirði en beygðum áður þangað kom inn á Norðurgrafarveg og keyrðum meðfram Leirvogsánni inn fyrir Karl við Kistufellið og upp í Grafardal. Þar var lagt og gert klárt fyrir uppgöngu. Við gengum upp með Grafará sem rennur niður dalinn og var stefnan tekin á Kattarhrygg. Þar jókst brattinn jafnt og þétt og áður en varði vorum við komnir á miðjan hrygginn og þá var hallinn orðinn svo mikill að það lá við að maður snéri öfugur! Áfram þræddum við hann þó upp smátt og smátt að klettabeltinu sem gnæfir þar fyrir ofan. Þar var sest niður og tekin góð pása eftir þessa bröttu uppgöngu. Síðan gengum við meðfram klettunum og fórum fyrir endann á þeim. Þar blasti við lítið skarð sem við gengum upp og fyrir ofan það sáum við nokkrar klettasnasir framundan. Við fikruðum okkur með þeim með varúð en allt gekk fljótt og vel og fyrr en varði vorum komnir á toppinn og ekkert framunda en leiðin áleiðs að sjálfum Hátindinum. Það var þó töluverður spotti þangað og smá hækkun enn. Á leiðinni byrjuðu skýjahnoðrar að þéttast mjög og á miðri leið vorum við staddir í drungalegum þokuslæðingi sem blés yfir fjallstoppinn og kastaðist svo niður hlíðarnar þar sem að hún eyddist hratt. Fyrir vikið sáum við ekki steyptu súluna og vörðuna á sjálfum tindinum fyrr en við vorum komnir svo gott alveg að þeim. Nokkur vindur var á toppnum og smá kuldi í honum þannig að við settumst í skjóli við klettanös neðan vörðunnar og gleyptum í okkur nestið og skáluðum í hinni hefðbundnu toppskál. Um leið, eins og hendi væri veifað hurfu öll skýin sem höfðu byrgt okkur sýn og útsýnið var stórkostlegt, allt frá Þingvallavatni yfir Hengilsvæðið, Bláfjöllin og yfir Reykjanes og svo glitti í Mosfellsbæ og Grafarvog áður en Karlinn byrgði frekara útsýni. En sólin skein og heiðskírt var yfir öllu þannig að við nutum þess að sjá vítt um völl. Um leið sáum við beint framundan áætlaða niðurleið en við höfðum ákveðið að fara aðra leið niður en við komum upp. Því var stefnan tekin niður fjallið að Þverárkotsháls. Ekki var seinna vænna á meðan útsýnið var skýrt og gott svo við skelltum á okkur pokunum og stormuðum af stað. Þegar að enda hryggsins á toppinum var komið, þurfti fyrst að fara niður smá klettahöft og við tóku síðan skriður af hryggnum en svo komumst við á beinu brautina. Þarna var aðeins farið að taka í kálfa og læri „gömlu“ mannanna og þreyta farin að segja til sín en menn voru mjög ánægðir með að hafa tekið þessa ákvörðun að skella sér á tindinn. Þegar við komum svo niður að Grafará var tekin bein stefna að bílnum og það voru kátir og glaðir garpar sem luku tæplega 10 km. göngu (skv mælistiku kortavefs www.ja.is)





Að venju fylgir svo vísubrot um ferðina:

Á Hátind heljarmenni vildu,
hugrakkir og vel búnir.
Síðla kvelds, luku fjallaskyldu,
skakklappaðir og vel snúnir!

Glaðr mjög og reifr,
tindr að baki.
Við búk mjög vel hreyfr
þó strengi nú þjaki.

Comments

Popular posts from this blog

Lali og Reykjaborg

Stutt gönguæfing var tekin 1. júlí sem liður í undirbúningi fyrir Leggjabrjót sem stefnt er á að ganga um helgina. Mættir voru 2 garpar úr klúbbnum að þessu sinni, Andrés og Sveinn. Júlli gönguhundur er í sjúkraleyfi og Alfreð var löglega afsakaður vegna vinnutarnar. Mynd fengin af www.ja.is/kortavefur Lagt var af stað frá malarstæði við húsið Hvoll rétt við Reykir og Suður-Reykir í botni Mosfellsbæjar og gengið eftir hestastíg meðfram Uxamýri. Síðan var beygt snarlega af leið og haldið upp á Hádegisfell og þaðan yfir Borgardal og stefnan tekin á hnúkinn Lala (244 m). Gott útsýni er af honum yfir sveit og byggð og gaman að koma á nýja staði og sjá hlutina í allt öðru og nýju ljósi. Eftir stutt stopp og spjall var gengið í átt að Bjarnarvatni og beygt upp á Reykjaborg. Þegar hér var komið var langt liðið á kvöld og því ákveðið að menn væru í góðu formi fyrir Leggjabrjótinn. Því var tekin bein lína í átt að Mosfellsbæ og gengið að bílastæðinu. Engin var tekin kaffistofan enda fáliðað í

Að leggja, Vörðuskeggja!

Sunnudaginn 10. maí var lagt af stað frá Grafarvoginum áleiðis upp á Hafravatn þaðan sem leið lá á Nesjavallaveg áleiðis í Dyradal. Nú skyldi tekið á því og Vörðuskeggi kláraður enda sat það enn í félagsmönnum OFAR þegar að frá varð að hverfa þegar reynt var við hann í febrúar síðastliðnum. Mikil stemming var í hópnum enda 4 meðlimurinn, Birgir, mættur á svæðið í sína fyrstu ferð með klúbbnum og að auki voru Ellen og Stefnir líka með og auðvitað Júlli fjallagarpur. Veður var ágætt á láglendi þegar á bílastæðið við Dyradal var komið en þungbúið og hálfsvalt yfir og skýjað í fjalli þannig að göngufólk klæddi sig vel upp áður lagt yrði af stað. Síðan var strikið tekið yfir veginn og haldið af stað í áttina að Vörðuskeggja. Ekki var löng ganga að baki þegar að Andrés fann „…höfuð af hrúti, hrygg og gæruskinn“ eins og segir í laginu um krumma kallinn og krunkaði hann á hina göngugarpana til að skoða gripinn. Voru teknar myndir í minningarbókina um fallin félaga í fjallaferðum enda íslenskar

Nú var farið í keilu, nei fyrirgefið, á Keilir!

3D mynd af gönguleiðinni ( Google Earth! ) Þessi ferð var með öðru sniði en hinar 4 sem meðlimir gönguklúbbsins höfðu farið áður. Að þessu sinni var ákveðið að gera þetta að nokkurs konar fjölskylduferð. Ellen, Þorgerður Erla, Gunnhildur og Stefnir ætluðu nú að koma með okkur og að sjálfsögðu Júlli garpur og var búið að ákveða að fara á Keilir á Reykjanesinu. Það er sem sagt keilulaga fjallið sem blasir við þegar maður er á fleygiferð eftir Reykjanesbrautinni, oftast á leið úr landi eða á heimleið eftir reisu til „útlandsins“. Því miður var Stefnir veikur og komst ekki með að þessu sinni. Góð stór "svindl" panoramamynd af Keili, tekin af Andrési: Nú var ákveðið að úrið hans Alfreds réði för enda hafði hann niðurhalað GPS gönguleið sem hann hafði fundið á netinu (þessi leið er í boði Leifs Hákonarson og finnst á Wikiloc.com: Takk Leifur!): Þegar búið var að smala saman öllu liðinu rúmlega kl. 09.00 var haldið sem leið lá á Reykjanesbrautina. Þegar keyrt var framhjá Kúagerði