Skip to main content

Nú var farið í keilu, nei fyrirgefið, á Keilir!

3D mynd af gönguleiðinni (Google Earth!)

Þessi ferð var með öðru sniði en hinar 4 sem meðlimir gönguklúbbsins höfðu farið áður. Að þessu sinni var ákveðið að gera þetta að nokkurs konar fjölskylduferð. Ellen, Þorgerður Erla, Gunnhildur og Stefnir ætluðu nú að koma með okkur og að sjálfsögðu Júlli garpur og var búið að ákveða að fara á Keilir á Reykjanesinu. Það er sem sagt keilulaga fjallið sem blasir við þegar maður er á fleygiferð eftir Reykjanesbrautinni, oftast á leið úr landi eða á heimleið eftir reisu til „útlandsins“. Því miður var Stefnir veikur og komst ekki með að þessu sinni.

Góð stór "svindl" panoramamynd af Keili, tekin af Andrési:


Nú var ákveðið að úrið hans Alfreds réði för enda hafði hann niðurhalað GPS gönguleið sem hann hafði fundið á netinu (þessi leið er í boði Leifs Hákonarson og finnst á Wikiloc.com: Takk Leifur!):


Þegar búið var að smala saman öllu liðinu rúmlega kl. 09.00 var haldið sem leið lá á Reykjanesbrautina. Þegar keyrt var framhjá Kúagerði var beygt til hægri við Vatnsleysustrandaveg og farið undir Reykjanesbrautina og sem leið lá framhjá Vatnaborg og keyrt í átt að Höskuldarvöllum. Rétt áður en komið er að þeim var bílunum lagt við endann á Oddafelli og við blasti Keilir í allri sinni dýrð. Veðrið og sólin lék við hvurn sinn fingur og lofaði dagurinn afar góðu. Allir voru í fínum gír og til í góðan göngutúr. Þá var haldið af stað. Fyrst var gengið meðfram Oddafelli langa leið og síðan beygt upp á Þráinsskjaldarhraunið í átt að Keilir. Þráinsskjöldur er stór hraunbunga norðaustan af Fagradalsfjalls. Litlar minjar eldsumbrota eru í hvirfli hennar, en geysimikil hraun hafa runnið til suðurs, vesturs og þó miklu mest til norðurs. Hraunið rann kringum Keilir og Keilisbörn og færði Litla Keilir næstum í kaf.

Þessar hraunbreiður heita einu nafni Þráinsskjaldarhraun og ná austan frá Vatnsleysuvík vestur að Vogastapa. Þannig stendur öll byggð í Vogum og Vatnsleysuströnd í þessu hrauni. Talið er að Þráinsskjaldarhraun hafi runnið fyrir um 9000 árum. Þráinsskjöldur er einna mikilvirkasta eldstöðin á öllum Reykjanesskaga.

Því miður gera slysin ekki alltaf boð á undan sér og sá leiði atburður gerðist að Þorgerður Erla datt illa í úfnu hrauninu og rak hnéð í hraunnabba. Átti það eftir að há henni svolítið það sem eftir lifði göngunnar en hún harkaði það af sér.

Þegar komið var yfir hraunbreiðuna og komið var undir rætur Keilis var tekið smá hlé á göngunni og nesti dregið upp til að bæta á orkuna fyrir labbið upp. Þar sannaðist hið fornkveðna að "oft má í mosa misheyra"! Ellen varð á orði að Júlli væri með fæðingarblett á tungunni. Þetta misheyrði Sveinn illilega og sagði stundarhátt „Ha! Er Júlli með fæðingarblett á punginum!?“ Var mikið hlegið og talað um að varla hefði Ellen tekið bifvélavirkjann á þetta og rennt sér undir hundinn til að skoða undirverkið!

En áfram var haldið og nú lá leiðin upp á við. Allt gekk áfallalaust fyrir sig og von bráðar var komið á toppinn.
Þar sátu eldri hjón sem höfðu tekið fram úr okkur á leiðinni, (já svona, við vorum með börnin!) og mauluðu nestið sitt. 11 ára gömul íslensk tík sem var með þeim í för og stóð sig eins og hetja lá makindalega og sólaði sig í góða veðrinu. Við stoppuðum góða stund og tókum myndir og fengum manninn á staðnum til að taka eina góða hópmynd. Síðan var ritað í gestabókina og skellt í vörðurnar að hefðbundnum sið.

Þá var komið að niðurferð. Brattinn niður fjallið gerði Þorgerði Erlu dolítið lofthrædda og því þurfti hún smá hjálp frá pabba sínum til að komast niður. Kannski engin furða fyrir óvana að horfa niður bratta og grýtta hlíð Keilis. Því var hægt farið yfir, eða niður réttara sagt. Allt gekk það þó að óskum og var nú stefnan tekin beint að bílastæðinu eins og staðsetningartæki Alfreds leiðbeindi okkur.
Á leiðinni sköpuðust skemmtilegar umræður um málshætti og kastaði Andrés fram þeim fyrsta; „Oft verður handverk úr hugmyndum!“. Þá kom Þorgerður Erla með einn; „Oft fær maður höfuðverk af hugsjónum!“ og í framhaldinu fylgdu nokkrir sem að voru hver öðrum súrealískir. Var orsökinni aðallega beint að „þunna“ loftinu sem umlék höfuð göngumanna hversu mikil vitleysa rann upp úr þeim.

Baka leiðin var sínu lengri en hún sýndist vera af toppi Keilis og var mannskapurinn því hálf lúinn þegar að bílum var komið. En glöð og ánægð með góða ferð.

Þá var ekkert að gera en að drífa sig í bílana og halda í átt að Hafnarfirði. Andrés rallýkappi dreifði hjólkoppum vinstri og hægri á bakaleiðinni svo Alfred mátti hafa sig allan við að týna þá upp. En allir enduðu þeir á sínum stað! Sérstaklega þessi eini…

Endað var svo í hinum hýra Hafnarfirði til að fá sér kaffisopa og með því. Gekk það ekki þrautalaust því á fyrsta staðnum var ekki búið að opna kaffihúsið sem þó var auglýst á gluggum verslunarinnar og í nærliggjandi bakaríi var næstum sjálfsafgreiðsla þar sem að starfsdaman kunni ekki á kaffivélina. En allir fengu nægju sína og góður dagur í skemmtilegum félagsskap að enda kominn.

Alfred bætti við vídeói og myndum:



Sveinn les skiltið til að vera viss um hvert við erum að fara, hann mun aldrei alveg treysta úrinu:


Mynd á leið upp:


Mynd á leið upp II:


GPS mynd af göngunni. Athugul augu gætu séð hvar við sveigðum (óvart) af leið, en úrið minnti á sig og við vorum fljót aftur á leið:


Þessi hæðamynd segir 395m en Keilir er ekki nema 379 - hver ætli óvissan sé á hæðinni í úrinu?!?!?


Gönguleiðin:

Comments

Popular posts from this blog

Lali og Reykjaborg

Stutt gönguæfing var tekin 1. júlí sem liður í undirbúningi fyrir Leggjabrjót sem stefnt er á að ganga um helgina. Mættir voru 2 garpar úr klúbbnum að þessu sinni, Andrés og Sveinn. Júlli gönguhundur er í sjúkraleyfi og Alfreð var löglega afsakaður vegna vinnutarnar. Mynd fengin af www.ja.is/kortavefur Lagt var af stað frá malarstæði við húsið Hvoll rétt við Reykir og Suður-Reykir í botni Mosfellsbæjar og gengið eftir hestastíg meðfram Uxamýri. Síðan var beygt snarlega af leið og haldið upp á Hádegisfell og þaðan yfir Borgardal og stefnan tekin á hnúkinn Lala (244 m). Gott útsýni er af honum yfir sveit og byggð og gaman að koma á nýja staði og sjá hlutina í allt öðru og nýju ljósi. Eftir stutt stopp og spjall var gengið í átt að Bjarnarvatni og beygt upp á Reykjaborg. Þegar hér var komið var langt liðið á kvöld og því ákveðið að menn væru í góðu formi fyrir Leggjabrjótinn. Því var tekin bein lína í átt að Mosfellsbæ og gengið að bílastæðinu. Engin var tekin kaffistofan enda fáliðað í

Að leggja, Vörðuskeggja!

Sunnudaginn 10. maí var lagt af stað frá Grafarvoginum áleiðis upp á Hafravatn þaðan sem leið lá á Nesjavallaveg áleiðis í Dyradal. Nú skyldi tekið á því og Vörðuskeggi kláraður enda sat það enn í félagsmönnum OFAR þegar að frá varð að hverfa þegar reynt var við hann í febrúar síðastliðnum. Mikil stemming var í hópnum enda 4 meðlimurinn, Birgir, mættur á svæðið í sína fyrstu ferð með klúbbnum og að auki voru Ellen og Stefnir líka með og auðvitað Júlli fjallagarpur. Veður var ágætt á láglendi þegar á bílastæðið við Dyradal var komið en þungbúið og hálfsvalt yfir og skýjað í fjalli þannig að göngufólk klæddi sig vel upp áður lagt yrði af stað. Síðan var strikið tekið yfir veginn og haldið af stað í áttina að Vörðuskeggja. Ekki var löng ganga að baki þegar að Andrés fann „…höfuð af hrúti, hrygg og gæruskinn“ eins og segir í laginu um krumma kallinn og krunkaði hann á hina göngugarpana til að skoða gripinn. Voru teknar myndir í minningarbókina um fallin félaga í fjallaferðum enda íslenskar