Skip to main content

Súludans á Syðstusúlu

Fyrir rúmri viku var haldinn fundur hjá Ofar hópnum og línur lagðar fyrir komandi haust. Ákveðið var að fyrsta verð vetrarins yrði ekki af verri endanum og haldið skyldi á Syðstusúlu sem allra fyrst. Í framhaldinu myndi svo vera farið á Skessuhorn, Hvalfell og svo gengið á Akrafjall í byrjun desember. Þannig myndum við ná að klífa fjóra toppa fyrir lok ársins og töldum við okkur bara nokkuð góða ef það myndi takast.

Komnir á topp Syðstusúlu:

Fyrsta ferðin var semsagt á Syðstusúlu, sem er hæsti tindur Botnsúlanna, sem eru nokkurnveginn á miðri leiðinni milli Þingvalla og botns Hvalfjarðar. Gönguleiðin þarna á milli er kölluð Leggjabrjótur en hún liggur frá Svartagili, sunnan við Súlnagil (sem er mjög mikilvægt, enda erfitt gil yfirferðar), eftir Öxarárdal, í áttina að Myrkavatni, norðan við Sandvatn og niður í Hvalfjörð.

Lögðu Andrés, Sveinn og Alfred af stað úr Grafarvoginum strax upp úr klukkan 9 í morgun. Byrjað var á að sækja göngugarpinn Guðmund Þór við bensínstöðina Essó í Mosfellsbæ en þetta var í fyrsta sinn sem þessi mikli skátahöfðingi kom með okkur í göngu. Öllum leið okkur vel yfir því enda skátar ávallt viðbúnir og með öryggið á oddinum. Þrátt fyrir þetta þá lögðum við þó af stað með dálítinn söknuð i hjarta þar sem Júlli, hinn þindarlausi, fjórfótti og dyggi meðlimur hópsins gat ekki komið með enda í sumarbústaðsferð þessa helgi sá heppni hundur.

Keyrt var sem leið lá úr Mosfellsbæ, í gegnum Mosfellsdal og Þingvallaveginn svo til að þjónustumiðstöðinni Þingvöllum en beygt var upp Uxahryggjaveg en fljótlega beygt upp Biskupsbrekkur í átt að Svartagili. Hugmyndin var að ganga þar af stað eftir Leggjabrjót, en þegar við vorum komnir í Svartagil þá ákváðum við hreinlega að keyra eins langt eftir Leggjabrjót, yfir lækjasprænur og björg vegarins, eins og jeppinn drifi. Það var gert og hin mesta skemmtun enda dreif jeppinn ágætlega.

Á láglendi áður en lagt var af stað:

Gangan hófst síðan í Öxarárdalnum eftir að jeppanum hafði verið lagt rétt fyrir neðan Fossbrekkurnar þar sem Súlnalækur rennur saman við Súlnaá, sem svo rennur í Öxarár 2km sunnar. Annars var gengið norð-vestur upp í Fossbrekkurnar og var mikið rætt um að við yrðum að passa okkur á Súlnagili því við höfðum allir lesið og heyrt um að það væri gil sem tekið hefði töluverða orku frá göngugörpum sem ætluðu sér á Syðstusúlu. Við áttuðum okkur á því á leiðinni niður að Þessar áhyggjur hefðu reynst óþarfar þar sem við hefðum þegar verið komnir vestar en Súlnagil þegar við lögðum af stað.

Við þurftum að hoppa yfir nokkra læki á leiðinni en tókst ekki betur til en svo að okkar leggjalengsti meðlimur rann til og beint ofan í fyrsta lækinn sem hann þurfti að hoppa yfir. Þetta hafði samt ekkert að segja og sagðist hann ekki einu sinni hafa blotnað í fæturna og okkur hinum sýndist honum bara vaxa ásmegin við þessa raun. Guðmundur Þór heyrðist meira að segja hvísla niður í bringu sér að óþarfi væri nú að hlaupa upp fjallið.

Annars var gengið nokkuð beint upp fjallið og fljótlega var stefnan tekin á skarð sem við sáum efst í fjallinu. Erfitt var að ganga þarna upp og leiðin ein sú brattasta sem við höfum farið í til þessa. Enda höfum við aldrei heyrt annað eins blásturshljóð úr einum munni eins og þegar Andrés stoppaði í miðri brekku og kastaði mæðinni.

Útsýnið sem blasti við meðan mæðinni var kastað


Þar að auki var grjótið í fjallinu mjög laust í sér og var það haft á orði að þetta fjall héldist varla saman. Enda spóluðu garparnir aftur og aftur á leiðinni. Sem betur fer missti þó enginn alveg fótana því þarna hefði verið hægt að renna langt niður og erfitt hefði getað verið að stoppa sig þar sem ekki var mikið til að grípa í.

Töluverður halli og mikið lausagrjót á leiðinni:


Þetta var samt allt þess virði þegar upp var komið því þar birtist okkur fjallgarður Botnsúlanna í kringum Súlnadal í allri sinni dýrð. Þar að auki bærðist varla hár á höfði, ekki var mikið af skýjum á himni, sólin lét sjá sig og útsýnið eins og best var á kosið. Þetta var tilkomumikil sjón þótt við værum bara í söðulpunkti og áttum eftir að klífa hrygginn að Syðstusúlu.

Andrés sýnir sérstaka takta á leiðinni upp:
Að ganga eftir hryggnum var í raun létt verk og löðurmannlegt í samanburði við uppgönguna. Þegar við vorum svo komnir upp á tindinn sjálfan þá sást nánast allt suðurlandið, til Vestmannaeyja og jafnvel til Eyjafjallajökuls. Til norðurs skoðuðum við Ok, Þórisjökul og Hlöðufellið. Til vesturs dáðumst við af Snæfellsjökli eins og hann verður fallegastur. Þetta var sko ekkert eðlilegt útsýni - svona upplifir maörður bara á fjöllum á Íslandi. Látiði endilega sjá ykkur þegar ykkur hentar því fjöllin munu víst vaka í 1000 ár.

Við fórum lengri leið niður en upp, gengum lengra eftir hryggnum uppi og hlupum með hælana á undan niður eftir snjónum þar til við vorum komnir í nokkuð létt aflíðandi brekku neðar í hlíðinni. Tveir okkar rifjuðu upp gamla skíðatakta og hoppuðu um eins og unglingar á leiðinni - enda Syðstasúla sigruð og veðrið yndislegt og andinn í háloftunum.
Ekki var dónalegt útsýni á leiðinni niður... nema kannski nýju gleraugun hans Alfreðs.
Þegar við vorum komnir í bílinn þá var keyrt af stað. Jeppinn stóð sig eins og hetja þegar bílstjórinn var orðinn öruggari með sig og keyrði yfir einn af lækjunum á leiðinni þannig að vatnið gusaðist uppá húddið. En haldið var rakleiðis í Mosfellsbakarí, tekinn bolli af Cappuchino og sætindi með, til að koma blóðsykrinum á réttan stað, en svo var líka förinni lokið.

Sæluferð á Súlu fór
Sjáðu pabbi, hvað ég er stór,
Stóð með vinum, sterkur sór
hæsta tind að vinna
Klifum skriður, skaflaslóð
fljótt á tindi stoltur stóð
í augum glampar lífsins glóð
tilgang lífs að finna

-Höfundur er hinn hagmælti Andrés Erlingsson

Gönguleiðin upp vinstra megin og svo niður:



Syðstasúla innan um aðra toppa Botnsúlu:



GPS sýnir hæðina 1113m; en Syðstasúla er bara 1093m:



Fleiri myndir, í tímaröð















Comments

Popular posts from this blog

Lali og Reykjaborg

Stutt gönguæfing var tekin 1. júlí sem liður í undirbúningi fyrir Leggjabrjót sem stefnt er á að ganga um helgina. Mættir voru 2 garpar úr klúbbnum að þessu sinni, Andrés og Sveinn. Júlli gönguhundur er í sjúkraleyfi og Alfreð var löglega afsakaður vegna vinnutarnar. Mynd fengin af www.ja.is/kortavefur Lagt var af stað frá malarstæði við húsið Hvoll rétt við Reykir og Suður-Reykir í botni Mosfellsbæjar og gengið eftir hestastíg meðfram Uxamýri. Síðan var beygt snarlega af leið og haldið upp á Hádegisfell og þaðan yfir Borgardal og stefnan tekin á hnúkinn Lala (244 m). Gott útsýni er af honum yfir sveit og byggð og gaman að koma á nýja staði og sjá hlutina í allt öðru og nýju ljósi. Eftir stutt stopp og spjall var gengið í átt að Bjarnarvatni og beygt upp á Reykjaborg. Þegar hér var komið var langt liðið á kvöld og því ákveðið að menn væru í góðu formi fyrir Leggjabrjótinn. Því var tekin bein lína í átt að Mosfellsbæ og gengið að bílastæðinu. Engin var tekin kaffistofan enda fáliðað í

Að leggja, Vörðuskeggja!

Sunnudaginn 10. maí var lagt af stað frá Grafarvoginum áleiðis upp á Hafravatn þaðan sem leið lá á Nesjavallaveg áleiðis í Dyradal. Nú skyldi tekið á því og Vörðuskeggi kláraður enda sat það enn í félagsmönnum OFAR þegar að frá varð að hverfa þegar reynt var við hann í febrúar síðastliðnum. Mikil stemming var í hópnum enda 4 meðlimurinn, Birgir, mættur á svæðið í sína fyrstu ferð með klúbbnum og að auki voru Ellen og Stefnir líka með og auðvitað Júlli fjallagarpur. Veður var ágætt á láglendi þegar á bílastæðið við Dyradal var komið en þungbúið og hálfsvalt yfir og skýjað í fjalli þannig að göngufólk klæddi sig vel upp áður lagt yrði af stað. Síðan var strikið tekið yfir veginn og haldið af stað í áttina að Vörðuskeggja. Ekki var löng ganga að baki þegar að Andrés fann „…höfuð af hrúti, hrygg og gæruskinn“ eins og segir í laginu um krumma kallinn og krunkaði hann á hina göngugarpana til að skoða gripinn. Voru teknar myndir í minningarbókina um fallin félaga í fjallaferðum enda íslenskar

Nú var farið í keilu, nei fyrirgefið, á Keilir!

3D mynd af gönguleiðinni ( Google Earth! ) Þessi ferð var með öðru sniði en hinar 4 sem meðlimir gönguklúbbsins höfðu farið áður. Að þessu sinni var ákveðið að gera þetta að nokkurs konar fjölskylduferð. Ellen, Þorgerður Erla, Gunnhildur og Stefnir ætluðu nú að koma með okkur og að sjálfsögðu Júlli garpur og var búið að ákveða að fara á Keilir á Reykjanesinu. Það er sem sagt keilulaga fjallið sem blasir við þegar maður er á fleygiferð eftir Reykjanesbrautinni, oftast á leið úr landi eða á heimleið eftir reisu til „útlandsins“. Því miður var Stefnir veikur og komst ekki með að þessu sinni. Góð stór "svindl" panoramamynd af Keili, tekin af Andrési: Nú var ákveðið að úrið hans Alfreds réði för enda hafði hann niðurhalað GPS gönguleið sem hann hafði fundið á netinu (þessi leið er í boði Leifs Hákonarson og finnst á Wikiloc.com: Takk Leifur!): Þegar búið var að smala saman öllu liðinu rúmlega kl. 09.00 var haldið sem leið lá á Reykjanesbrautina. Þegar keyrt var framhjá Kúagerði