Skip to main content

Hengill í hyllingum

3D mynd af gönguleiðinni (Google Earth!)

Í annað sinn tók Gönguhópurinn Ofar sig til og gekk til fjalla. Aftur mættu til göngu Alfred, Sveinn og Andrés en sérleg vöntun var í Júlla kallinum en hann hafði farið í sumarbústað um helgina og gat því ekki komið með. Einnig söknuðum við Bigga, eða kóngsins eins og einn göngumanna kallaði hann í ferðinni.

Sveinn og Andrés sposkir á svip í upphafi ferðar:


En í þetta sinn var stefnt að því að ganga á Hengil. Eftir að hafa rýnt í bók Ara Trausta og Péturs Þorleifssonar, Gönguleiðir á 151 tind, var ákveðið að leggja fyrr af stað en gert var síðast. Keyrt var af stað úr Vesturbænum strax klukkan níu um Sunnudagsmorguninn en sækja þurfti félaga bæði í Breiðholtið og Grafarvoginn. Þegar allir voru komnir í bílinn var stefnt út úr bænum. Keyrt var rakleiðis austur að Hveradölum en ákveðið að beygja hjá skíðaskálanum og skoða nýju virkjunina og svæðið í kring.

Eftir einhverja rannsóknavinnu þóttumst við vera á réttum stað og áttum bara eftir að taka eina vinstri beygju og þá værum við komnir á slóðann hans Ara Trausta. Strax að beygjunni lokinni tókst okkur hins vegar að festa bílinn, þótt á Ford Explorer 4x4 værum. Þeir félagar sem ekki áttu bílinn né sátu við stýrið töldu þetta allt vera því að kenna að við gætum ekki læst drifum bílsins - bara hægt að setja í 4x4 Low! Við vorum samt vissir um að þetta væri hægt en við einfaldlega kynnum ekki á bílinn. Eiganda bílsins því í snar-hasti sett fyrir það verkefni, fyrir næstu ferð, að vera búinn að lesa "manualinn". En gaman.

Með huganum einum saman (og nokkrum steinum), þar sem bíllinn var ekki til stórræðna, tókst okkur þó að losa hann. En ákváðum þá að skilja við hann þar sem við vorum, og ganga frekar, komum við ekki til þess hvort eð er? Og var þetta ekki fjallið sem við ætluðum uppá, það héldum við! Svo gengið var af stað.

Við vorum ekki alveg vissir með veðrið þegar við lögðum af stað úr bænum en það hafði bara batnað á þeim tíma sem liðinn var og leit nú allt vel út.

Sveinn og Alfred þegar upp var komið:


Gengið var einhvern kílómeter inn eftir fjallinu til að leita heppilegrar uppgöngu. Hún fannst og var þá lagt á fjallið. Eftir dálítið klifur upp brattann sáum við einn stóran jeppa og einn lítinn í samfloti fyrir neðan. Vorum við vissir um að þetta væri fólk frá Capacent. Eftir ferðina á Vífilsfellið (þar sem við rákumst á Capacent fólk) þá vorum við í sambandi við þau og fréttum að þau ætluðu líka á Hengil þennan sama dag. Algjörlega frábær tilviljun. Svo við töldum þetta vera þau á leið á Hengil.

Við héldum uppgöngunni áfram og ætluðum sko ekki að láta þau ná okkur :-) Eftir að hafa klifið eina 200 metra (það var náttúrulega hæðarmælir með í för) þá vorum við komnir upp í léttari göngu. Töldum við okkur vera á góðu róli, enda hafði Ari Trausti sagt í bókinni að gönguhækkunin væri 500 metrar og við strax búnir með 200. En...

...við komumst fljótt að því að við værum greinilega að fara löngu leiðina á Hengil því framundan var endir þessa fjalls. Við þurftum því að ganga aftur niður alla þessa fínu 200 metra. Þetta var augljóslega dálítið svekkjandi. En við erum nú ekki menn sem gefast upp.

Skrambinn Skeggi, Hengill er næsta fjall:


Við vorum semsagt uppi á Skarðsmýrarfjalli og horfðum niður í Hengladali og Innstadal. Við sáum jeppana tvo keyra inn eftir en þeir stoppuðu ekki og enginn fór út; þetta var örugglega ekki Capacent fólkið. Við sáum jeppana keyra til baka töluvert síðar og sáum enga aðra ganga á Hengil, ætli Capacent hafi farið?

Hvað með það. Þegar við vorum komnir niður og gengum fram á tómt sæluhús (sem ég veit nú að heitir Hreysi) þá töldum við þetta kannski vera sæluhúsið sem Ari Trausti hefði nefnt í bókinni sinni :-) En á þessum tíma vorum við nú farnir að kalla hann Ara Ótrausta, en það var nú alls ekki réttlátt - en svona fer þunna loftið víst með mann.

Göngumælirinn sagði á þessum tíma að við værum þegar búnir að ganga eina 5 kílómetra og við rétt að byrja uppgönguna á Hengil. Púúúhhh. En eins og ég sagði, Gönguhópurinn Ofar gefst ekki upp. Svo, eftir pissupásu, var haldið áfram, yfir ánna, framhjá flotta fossinum og uppí móti.

Við fossinn tók Andrés að vísu fyrst upp símann sinn og ætlaði að sýna okkur hvernig hann gæti tekið upp vídeó fyrir okkur hina. Eftir að hafa leikið náttúrulífsmyndakynni í dálítinn tíma þá kom í ljós hvers vegna hann lærði sagnfræði, en ekki tölvunarfræði eins og við hinir, hann hafði gleymt að kveikja á upptöku! Hahaha. Góður.

BEGIN EDIT 25.02.2009
Þetta tókst samt á endanum hjá honum og hér er niðurstaðan:


END EDIT 25.02.2009

BEGIN EDIT 26.02.2009
Hér kemur svo myndskeið frá Sveini:


END EDIT 26.02.2009

Þegar við vorum komnir af stað þá kom fljótlega í ljós að þótt veðrið hefði verið ágætt til að byrja með þá var þoka farin að leka yfir landslagið af og til. Vegna þessa lentum við á stað þar sem við þurftum að snúa við til að að fara aðra leið upp. Á endanum, þegar enn ofar var komið, þá sást ekki lengur til Skeggja, sem er heiti tindsins á Hengli, vegna þoku og skynsemin tók við, við ákváðum að fara ekki á tindinn í þetta sinn.

við snérum því við og gengum niður í góðu skyggni og enn og aftur hló Skeggi að okkur þegar niður að Hreysi var komið - því þá var skyggnið flott, engin þoka og vel sást alla leið upp á Skeggja. Seinna vinur. Þú ert ekki laus við okkur. Gönguhópurinn Ofar "will be back"!

Á leiðinni niður vorum við líka orðnir nokkuð þreyttir og Sveinn datt á bakið og brotnaði myndavélin eitthvað við það en hann meiddi sig ekki mikið, sem betur fer. Á leiðinni niður var rabbað um hvernig næsta ferð skyldi undirbúin og við þyrftum að kaupa okkur mannbrodda, göngustafi og ísexi. Okkur leið voða vanbúnum og nokkuð svekktir yfir að hafa ekki komist alveg á toppinn.

Til að einfalda leiðina til baka ákváðum við að ganga frá Hreysi í kringum Skarðsmýrarfjall, í stað þess að fara yfir það eins og áður. Þegar við vorum komnir töluvert áleiðis eftir "veginum" renndum við okkur samt á hlíðina og var það lukka því við styttum örugglega leiðina til baka töluvert og það var ekki hátt yfir fjallið þar.

Eftir töluverða, en ekki erfiða, göngu í viðbót komumst við loksins að bílnum aftur. Þetta var góð ferð þrátt fyrir allt. Sumir myndu segja þetta nálægt tveggja tinda ganga. Vvvááá! En hvað við erum æðislegir :-) Eða þannig.

Komnir að bílnum eftir rúmlega 14K göngu:


Allt í allt gengum við eina 14K leið og tók það okkur 4 klukkustundir og 20 mínútur. Um var að ræða hækkun úr 379 í 696 metra yfir sjávarmál. Við fórum hins vegar svo mikið upp og niður að GPS tækið mældi eina 947 metra hækkun. Nokkuð gott sunnudagsrölt.

Ótrúlegt upp og niður:


Með von um að næsta ganga verði einfaldari :-)

BEGIN EDIT 25.02.2009
Andrés orti eftirfarandi ljóð:

Hátt í himnabjörgum

Hengill í hyllingum
hristir upp í villingum,
hetjudáð fremja skal,
uppgjöf er ekkert val.

Leggjum svo létt af stað
brjótum í sögu blað,
er klífum á Skeggja tind,
léttir sem fjallakind.

Brátt er svo toppi náð
um stund eina stutt er áð.
En upp rennur óljúf stund,
við stöndum á rangri grund.

Fögur er samt fjallasýn,
því Skeggi, í fjarska skín.
Hvar erum við þá nú,
fyrst röng reynist okkar trú?

Skarðsmýrarfjall það nú er
sem undir okkar fótum ber.
Svo enn áfram halda skal,
búið er allt koddahjal.

Herða þarf nú ganginn vel
en ei oss, um verður sel.
Því skýjabakki birtist skjótt
og byrgir sýn svo nokkuð fljótt.

Snúa við, við þurfum víst,
af þessu engin dáð, nú hlýst.
En brátt að bíl við endum samt,
þó okkur þyki nokkuð gramt.

En löng er leið sem farin var,
og eigi langt af leið oss bar.
Svo endum kaffistofu á,
með kakó, brauð og fjallaþrá.
END EDIT 25.02.2009

PS: Ég lofa ekki að öll blog hér verði svona ítarleg.

Nokkrar myndir:

Hengill á korti:


Veðrið var ágætt þegar við lögðum á stað:


Við rætur Hengils er fallegur foss í klakaböndum:


Strákunum kalt á eyrunum:


Þegar upp var komið var Skeggi ekki í augsýn:


Komnir niður en mjög þreyttir:


Þegar nær dró bílnum rákumst við á skemmtilega hveri:


Hver ætli hafi haft gaman af þessari nostalgíu:


GPS Kortin:











Comments

Unknown said…
Cappar í Capacepnt voru náttúrlega á sömu slóðum, nema hvað við fórum náttúrlega á toppinn :-) Við gengum frá Dyradal og á Skeggja, samtals um 14 kílómetrar. Veðrið var frábært og skyggnið uppi á Skeggja var alveg frábært.

Gangi ykkur betur næst.

ke

Popular posts from this blog

Lali og Reykjaborg

Stutt gönguæfing var tekin 1. júlí sem liður í undirbúningi fyrir Leggjabrjót sem stefnt er á að ganga um helgina. Mættir voru 2 garpar úr klúbbnum að þessu sinni, Andrés og Sveinn. Júlli gönguhundur er í sjúkraleyfi og Alfreð var löglega afsakaður vegna vinnutarnar. Mynd fengin af www.ja.is/kortavefur Lagt var af stað frá malarstæði við húsið Hvoll rétt við Reykir og Suður-Reykir í botni Mosfellsbæjar og gengið eftir hestastíg meðfram Uxamýri. Síðan var beygt snarlega af leið og haldið upp á Hádegisfell og þaðan yfir Borgardal og stefnan tekin á hnúkinn Lala (244 m). Gott útsýni er af honum yfir sveit og byggð og gaman að koma á nýja staði og sjá hlutina í allt öðru og nýju ljósi. Eftir stutt stopp og spjall var gengið í átt að Bjarnarvatni og beygt upp á Reykjaborg. Þegar hér var komið var langt liðið á kvöld og því ákveðið að menn væru í góðu formi fyrir Leggjabrjótinn. Því var tekin bein lína í átt að Mosfellsbæ og gengið að bílastæðinu. Engin var tekin kaffistofan enda fáliðað í

Að leggja, Vörðuskeggja!

Sunnudaginn 10. maí var lagt af stað frá Grafarvoginum áleiðis upp á Hafravatn þaðan sem leið lá á Nesjavallaveg áleiðis í Dyradal. Nú skyldi tekið á því og Vörðuskeggi kláraður enda sat það enn í félagsmönnum OFAR þegar að frá varð að hverfa þegar reynt var við hann í febrúar síðastliðnum. Mikil stemming var í hópnum enda 4 meðlimurinn, Birgir, mættur á svæðið í sína fyrstu ferð með klúbbnum og að auki voru Ellen og Stefnir líka með og auðvitað Júlli fjallagarpur. Veður var ágætt á láglendi þegar á bílastæðið við Dyradal var komið en þungbúið og hálfsvalt yfir og skýjað í fjalli þannig að göngufólk klæddi sig vel upp áður lagt yrði af stað. Síðan var strikið tekið yfir veginn og haldið af stað í áttina að Vörðuskeggja. Ekki var löng ganga að baki þegar að Andrés fann „…höfuð af hrúti, hrygg og gæruskinn“ eins og segir í laginu um krumma kallinn og krunkaði hann á hina göngugarpana til að skoða gripinn. Voru teknar myndir í minningarbókina um fallin félaga í fjallaferðum enda íslenskar

Hvellir við Hvalfell

VIÐBÓT 1.12.2009 : FLEIRI MYNDIR ÚR FERÐINNI HÉR! Ætlunin hafði verið að fara yfir Skarðsheiðina og upp á Skessuhorn þessa helgina en sökum forfalla í Gönguklúbbnum Ofar var ákveðið að fresta því til betri tíðar. Í staðinn var ákveðið að nota hið góða veður sem spáð hafði verið (og stóðst líka svona vel) og skella sér þess í stað upp á Glym og þaðan upp á Hvalfellið . Að þessu sinni voru það Andrés, Alfreð og Reynir sem hittust á formlegum mótstað klúbbsins í Grafarvogi og var lagt af stað kl. 09.07 stundvíslega áleiðis í Hvalfjörðinn. Þar var áð stuttlega í sumarbústað hvar Júlli nokkur ferfætlingur lá í mestu makindum og hafði það huggulegt. Nú skyldi garpurinn fá að koma með og spretta úr spori. Veglegt morgunverðarhlaðborð beið ferðalanganna og var tekið hraustlega til matar og skellt í sig kaffifant eða tveim enda veitti ekki af allri orku fyrir ferðina. Eftir góðar trakteringar var brunað í botn Hvalfjarðar og bílnum lagt á bílastæðinu við bæinn Stóra Botn. Þaðan var lagt