Skip to main content

Hvellir við Hvalfell

VIÐBÓT 1.12.2009 : FLEIRI MYNDIR ÚR FERÐINNI HÉR!

Ætlunin hafði verið að fara yfir Skarðsheiðina og upp á Skessuhorn þessa helgina en sökum forfalla í Gönguklúbbnum Ofar var ákveðið að fresta því til betri tíðar. Í staðinn var ákveðið að nota hið góða veður sem spáð hafði verið (og stóðst líka svona vel) og skella sér þess í stað upp á Glym og þaðan upp á Hvalfellið.

Að þessu sinni voru það Andrés, Alfreð og Reynir sem hittust á formlegum mótstað klúbbsins í Grafarvogi og var lagt af stað kl. 09.07 stundvíslega áleiðis í Hvalfjörðinn. Þar var áð stuttlega í sumarbústað hvar Júlli nokkur ferfætlingur lá í mestu makindum og hafði það huggulegt. Nú skyldi garpurinn fá að koma með og spretta úr spori. Veglegt morgunverðarhlaðborð beið ferðalanganna og var tekið hraustlega til matar og skellt í sig kaffifant eða tveim enda veitti ekki af allri orku fyrir ferðina. Eftir góðar trakteringar var brunað í botn Hvalfjarðar og bílnum lagt á bílastæðinu við bæinn Stóra Botn.

Þaðan var lagt af stað í átt að Botnsá enda var ætlunin að fara hægra megin upp gilið að Glym og þaðan upp á Hvalfellið. Við ánna komum við að hellismuna að við héldum en þegar betur var að gáð sást að hann var opinn í gegn og lá stígur úr honum niður að ánni.

Eitthvað var Júlli ósáttur við þessa gönguleið okkar og hreinlega neitaði að fara í gegnum klettinn og tók hann upp á því að fara setuverkfall á nærliggjandi grasbala! Eftir þó nokkrar samningaviðræður og með hjálp taums var hægt að sannfæra hann um að halda áfram með þeim skilyrðum að önnur leið yrði farin.

Því var tekinn krókur af leið og farið ofar í gilið og komum við þá beint niður á ánna þar sem að liggja átti drumbur eða símastaur nokkur yfir ánna með stálvír til stuðnings. En illu heilli var drumburinn á árbakkanum hinum megin kirfilega festur með keðjum og lás þannig að nú voru góð ráð dýr. Var því tekin ákvörðun um að ganga upp að Glym þeim megin sem við vorum staddir og vaða yfir ánna að ofanverðu þar sem að okkar heimildir hermdu að auðvelt væri yfir að fara. Stefnan var því tekin beint upp með gilinu og farin hin hefðbundna gönguleið að Glym. Þegar þangað var komið var áð stuttlega og útsýnisins notið.

Svo var gengið upp ofar með ánni og Reynir fór strax af stað að vaða yfir en við hinar hænurnar vildum nú hafa vaðið fyrir neðan okkur og gengum lengra með ánni til að athuga hvort ekki væri von til þess að komast klakklaust yfir og helst á þurrum fótum. Á meðan því stóð var Reynir kominn yfir og kímdi nokkuð yfir pjattinu í kellingunum sem ekki höfðu farið á eftir honum. En svo stytta él upp um síðir að miðja vegu milli Glyms og Breiðafoss fannst þessi fína leið yfir ána þar sem hún skiptist í nokkra ála og var nú tiplað stórum á milli steina þar til á hinn bakkann var komið.

Þá var komið að næsta skrefi ferðarinnar en það var að ganga á Hvalfellið sjálft. Svolítið laust var í grjótinu þar sem við hófum uppgöngu en með sama hugarfari og hvernig á að borða heilan fíl (s.s. einn bita í einu) þá hafðist þetta í rólegheitum. Eftir því sem ofar dró kom æ betur í ljós hið gullfallega útsýni í ljós allt í kring um fellið og loks þegar á toppinn var komið blasti við landið í allri sinni dýrð, Hvalfjörðurinn, Skarðsheiðin og Skessuhorn (sem að ætlunin er að verði farin í næstu ferð), Baula, Skjaldbreiður, og ekki síst Hvalvatn, Botnsúlur (þar sem Syðsta Súla heilsaði okkur og við þökkuðum henni fyrir síðast) sem og Suðurfjall og svo margt fleira sem ekki verður endilega talið upp hér.

Á toppnum voru teknar myndir af öllu sem markvert þótti, s.s. eins og okkur, Júlla og nærliggjandi fjöllum. Það eina sem rauf kyrrðina voru nokkuð reglulegir skothvellir sem bárust af Leggjabrjótssvæðinu og vorum við fegnir því að vera ekki með hvítar húfur svo a ekki yrðum við teknir í misgripum fyrir rjúpur. Síðar kom nú í ljós að þarna voru menn líklegast á ólöglegum veiðum skv. fréttum en hvort þetta voru þeirra skothvellir sem við heyrðum vitum við ekki. Síðan var sest að snæðingi og ekki þótti Júlla leiðinlegt að fá samloku með ljúffengri kindakæfu á meðan að karlarnir skelltu í sig góðgæti úr mal sínum.

Eftir að hafa notið útsýnisins og belgt út maga af mat og skynfærin með útsýni var ákveðið að leita annarrar niðurleiðar en upp hafði verið farin. Enda höfðum við, eins og sönnum íslenskum karlmönnum sæmir, ekki kynnt okkur gönguleiðina á fellið á bílastæðinu við Stóra Botn þar sem er gott kort yfir svæðið og því vissum við ekki að ágætis niðurgönguleið væri t.d. lítið eitt vestan í Hvalfelli og niður í Hvalskarð sem liggur á milli Hvalfells og Botnssúlna. En við í Gönguklúbbnum Ofar bindum nú bagga okkar ekki sömu hnútum og aðrir göngugarpar og því var ákveðið að fara niður fellið beint fyrir ofan Mjóatungu. Við vorum varla lagðir af stað niður þegar við lentum í smá ógöngum þar sem að laust var efnið í hlíðinni og skrikaði okkur nokk fætur. Meira að segja Júlli kvartaði við okkur og leist ekkert á blikuna.

En með varfærni og skynsemi (sem kannski var fullseint að fara að grípa í, á þessum tímapunkti!) þá hafðist ferðin klakklaust niður og brátt vorum komnir á beinu brautina niður Mjóutungu. Þegar á enda hennar var komið ákváðum við að fara niður í Stóragil og krossa yfir ánna við veginn sem liggur niður frá Leggjabrjót.

Þegar komið var niður fyrir Mjóatungu vorum komnir í skóglendi nokkuð og þar sáum við rjúpur í felum fyrir veiðimönnum og kúrði ein t.d. alveg við fætur okkar inn í miðju kjarrinu. Vorum við nokkuð hissa á spaksemi fuglsins.

En áfram var haldið og þegar að ánni kom stukkum við tindilfættir yfir hana og vorum snöggir upp á veg. Þaðan var bein brautin á bílastæðið og komum við þangað u.þ.b. 6 tímum frá upphafi göngunnar. Þar sem að langt var liðið á daginn og tímaskipulaga aðeins gengið úr skorðum var ákveðið að bruna beint heim og hver myndi hella upp á hefðbundinn kaffibolla heima hjá sér að þessu sinni. Kvöddust ferðafélagarnir með sáttum á upphafsreit ferðarinnar í Grafarvogi kl. 17.03 og vorum bæði menn og hundur ánægðir í dagslok þegar fætur voru komnar upp í loft og kærkomin hvíld hafin.


Comments

Gestur Viðarsson said…
Duglegir eruð þið piltar, og þið látið ykkur bara hafa það! Það væri gaman að skella sér einhvertíman með. Það vantar þó annan göngugarp - Bigga - eða er hann orðinn að fyrrverandi garpi?

Kærar Kveðjur,

Gestur

Popular posts from this blog

Lali og Reykjaborg

Stutt gönguæfing var tekin 1. júlí sem liður í undirbúningi fyrir Leggjabrjót sem stefnt er á að ganga um helgina. Mættir voru 2 garpar úr klúbbnum að þessu sinni, Andrés og Sveinn. Júlli gönguhundur er í sjúkraleyfi og Alfreð var löglega afsakaður vegna vinnutarnar. Mynd fengin af www.ja.is/kortavefur Lagt var af stað frá malarstæði við húsið Hvoll rétt við Reykir og Suður-Reykir í botni Mosfellsbæjar og gengið eftir hestastíg meðfram Uxamýri. Síðan var beygt snarlega af leið og haldið upp á Hádegisfell og þaðan yfir Borgardal og stefnan tekin á hnúkinn Lala (244 m). Gott útsýni er af honum yfir sveit og byggð og gaman að koma á nýja staði og sjá hlutina í allt öðru og nýju ljósi. Eftir stutt stopp og spjall var gengið í átt að Bjarnarvatni og beygt upp á Reykjaborg. Þegar hér var komið var langt liðið á kvöld og því ákveðið að menn væru í góðu formi fyrir Leggjabrjótinn. Því var tekin bein lína í átt að Mosfellsbæ og gengið að bílastæðinu. Engin var tekin kaffistofan enda fáliðað í

Að leggja, Vörðuskeggja!

Sunnudaginn 10. maí var lagt af stað frá Grafarvoginum áleiðis upp á Hafravatn þaðan sem leið lá á Nesjavallaveg áleiðis í Dyradal. Nú skyldi tekið á því og Vörðuskeggi kláraður enda sat það enn í félagsmönnum OFAR þegar að frá varð að hverfa þegar reynt var við hann í febrúar síðastliðnum. Mikil stemming var í hópnum enda 4 meðlimurinn, Birgir, mættur á svæðið í sína fyrstu ferð með klúbbnum og að auki voru Ellen og Stefnir líka með og auðvitað Júlli fjallagarpur. Veður var ágætt á láglendi þegar á bílastæðið við Dyradal var komið en þungbúið og hálfsvalt yfir og skýjað í fjalli þannig að göngufólk klæddi sig vel upp áður lagt yrði af stað. Síðan var strikið tekið yfir veginn og haldið af stað í áttina að Vörðuskeggja. Ekki var löng ganga að baki þegar að Andrés fann „…höfuð af hrúti, hrygg og gæruskinn“ eins og segir í laginu um krumma kallinn og krunkaði hann á hina göngugarpana til að skoða gripinn. Voru teknar myndir í minningarbókina um fallin félaga í fjallaferðum enda íslenskar

Nú var farið í keilu, nei fyrirgefið, á Keilir!

3D mynd af gönguleiðinni ( Google Earth! ) Þessi ferð var með öðru sniði en hinar 4 sem meðlimir gönguklúbbsins höfðu farið áður. Að þessu sinni var ákveðið að gera þetta að nokkurs konar fjölskylduferð. Ellen, Þorgerður Erla, Gunnhildur og Stefnir ætluðu nú að koma með okkur og að sjálfsögðu Júlli garpur og var búið að ákveða að fara á Keilir á Reykjanesinu. Það er sem sagt keilulaga fjallið sem blasir við þegar maður er á fleygiferð eftir Reykjanesbrautinni, oftast á leið úr landi eða á heimleið eftir reisu til „útlandsins“. Því miður var Stefnir veikur og komst ekki með að þessu sinni. Góð stór "svindl" panoramamynd af Keili, tekin af Andrési: Nú var ákveðið að úrið hans Alfreds réði för enda hafði hann niðurhalað GPS gönguleið sem hann hafði fundið á netinu (þessi leið er í boði Leifs Hákonarson og finnst á Wikiloc.com: Takk Leifur!): Þegar búið var að smala saman öllu liðinu rúmlega kl. 09.00 var haldið sem leið lá á Reykjanesbrautina. Þegar keyrt var framhjá Kúagerði