Skip to main content

Búnir með Búrfell (1)

Vaskir sveinar tóku sig til á Hvítasunnudag og ákváðu að takast á við Búrfell í Grafningi. Ekki þótti sumum það vera verðugt klifur fyrir hina ógurlegu ofar menn, en þegar einn meðlimur ákvað að næla sér í flensuskot daginn áður, var metnaðurinn aðeins látinn víkja fyrir votti af skynsemi og fyrsta fjallaklifur á fjall sem sést ekki frá höfuðborgarsvæðinu komst á dagskrá.

Það sem vakti áhuga á þessu fjalli var m.a. það að heyrst hafði að það væri stöðuvatn ofan á fjallinu. Búrfell liggur norðan við Grímsnes og stendur við Úlfljótsvatn, sem er eiginlega uppistöðulón Ljósafossvirkjunar og blasir við þeim sem hafa komið að svæði skátanna við það vatn. Fjallið er um það bil 530 metra hátt samkvæmt ja.is og svo sem engin hóll.

Veðrið lofaði mjög góðu því að þrátt fyrir smá skúrir í Reykjavíkinni, var ekki hægt að sjá annað en að dagurinn yrði að mestu bjartur og sólríkur. Þetta virtist því ætla að verða fyrsta ferðin í sumarfæri, sem var ekki slæmt því að hengilsferðin, sem farin var 3 vikum fyrr var farin í rigningu, slyddu og snjókomu auk þess að mjög hvasst hafði verið uppi þann daginn.

Farið var óvenju seint af stað þennan morguninn eða klukkan 11 að beiðni eins meðlims sem slysaðist til að eiga góða kvöldstund með hvítvínsflösku, kvöldið áður. Einnig var Alfreð síður en svo í toppgír, enda kom á daginn að hann var að pína sig áfram, þrátt fyrir að vera ekki laus við flensuskrattann.... já það eru hörkutól í þessum hóp.

Klukkan 11 mættu Alfreð, Sveinn, Andrés, Stefnir og Júlli fyrir utan hjá Andrési, og var ákveðið að fara á einum bíl (enda búið að hækka skatta á bensíni föstudaginn áður). Júlli samþykkti að sitja laus frammi í hjá eigandanum og að skilja ekki eftir sig nein hár. Ekki fékkst sambærilegt loforð frá hinum ferþegunum.

Leiðin um Grafninginn sem farin var í síðustu ferð til Hengils var vegna mikilla vinsælda valin aftur, nema að núna var ekið alla leið að Úlfarsvatni. Leiðin gekk eins og í sögu og var útsýnið frábært, enda var veðrið mjög bjart.

Ekki voru nein GPS hnit hlaðin í úrið í þetta skiptið, og varð því að notast við gamaldags aðferðir til að finna stað til að byrja frá. Smá grjótnáma er vestan í fjallinu, og var farið inn á veg sem virtist liggja upp að fjallinu. Sá vegur reyndist vera allt sem þurfti fyrir utan það að smá brú vantaði yfir á sem rann þarna.

Því var lagt á örlitlu "bílaplani" og græjurnar teknar úr skottinu. Lagt var beint upp fjallið eftir leið sem virtist vera sæmilega fær. Við rákum augun í 2 fjallgöngumenn sem voru ofarlega í fjallinu á þessari leið, og því var nokkuð víst að þetta væri fær leið. Eins og venjulega var Júlli þjótandi fram og aftur upp og niður og skiljandi eftir sig lífrænan úrgang á meðan við klifum fjallið upp hjá Skriðugili.

Það var erfitt að sjá að Alfreð væri veikur, því hann var yfirleitt fyrstur í för. Hann taldi okkur trú um að það væri vegna þess að hann væri óvenju þögull og orkan og súrefnið nýttist því óvenju vel þennan daginn.

Búrfell reynist vera eitt af þessum fjöllum, þar sem manni sýnist toppurinn vera innan seilingar, en þá birist allt í einu annar hærri tindur sem er ekki alveg innan seilingar ennþá. En það kom að því að við komumst upp á fjallið, og þá sáum við að hæsti tindurinn var fyrir norðan okkur, og þar sáum við hóp af fólki sem var þegar komið þangað.

Við hlupum af stað og tókum stefnuna þangað, og innan skamms birtist okkur lítið vatn sem við gárungarnir töldum vera gígvatn. Vantið var mjög tært að sjá og handan við það var svo áætlunarstaðurinn... hæsti tindurinn.

Og viti menn, enn einu sinni tókst okkur að klífa upp á topp á íslensku fjalli og þarna uppi blasti við okkur frábært útsýni. Það sást allt suðurlandsundirlendið, Þingvallasvæðið og til vestur sást gamli óvinur okkar Hengill sem leit bara sakleysislega út. Nú sást skammt frá tindinum annar tindur sem líka var með vörðu. Var það kannski hæsti punkturinn? Við vildum auðvitað ekki taka neina áhættu og fórum því yfir á hann líka.

Þegar hingað var komið og litið til baka, virtist fyrri tindurinn vera hærri.... eða voru þeir bara jafn háir?

Nú var kominn tími á nokkur Sony/Canon móment og tóku menn snilldarpósur í tilefni af því.

Jæja, nú voru menn svangir en eins og á Móskarðahnúki var ekkert skjól að fá. Nestisbitinn varð að bíða eftir því að við finndum skjólríkan stað... sem reyndist ekki vera mjög erfitt, því niðri við gígvatnið var fínt skjól sem var vaxið stórum og mjúkum hægindamosa.

Brauð, súkkulaði, Kókómjólk, Hámark, vatn, ChocKaff, Kit Kat og Glenrothes afgreitt snarlega af bestu lyst.

Jæja, eftir að Júlli hafði spjallað við hund sem bar að tókum við af stað niður fjallið. Nú gengum við meðfram gígvatninu til að skoða það betur. Vatnið reyndist vera tært, djúpt, kalt og blautt. Júlli lét ekki þar við sitja heldu tókst honum að eignast nýja vini við vatnsendann sem tóku margar myndir og hrósuðu Andrési fyrir að hafa alið hann vel upp. Þær hrósuðu Sveini hins vegar ekki fyrir að hafa alið Alfreð vel upp, og er það honum mikil ráðgáta.

Nú lá leiðin nokkurn vegin niður sömu leið og við komum, en eins og venjulega þurfti að prófa að fara aðeins frá uppgönguleiðinni og fannst skemmtileg leið sem lá um klettabelti í fjallinu, þar sem jarðskrið hafði átt sér stað nýlega og einnig var fullt af hellum að sjá, sem mynduðu andlit í augum manna með ímyndunarafl.

Bílastæðinu var fljótlega náð, og þar sem menn langaði að komast loksins aftur á bestu vegakaffistofu landsins var ekið yfir Hellisheiði til baka og að sjálfsögðu stoppað í Litlu kaffistofunni.

Nú erum við að nálgast fjall númer 10 og var rætt að það skyldi verða eitthvað almennilegt og einnig að ferð númer 9 skyldi farin á hæsta punkt Esju (sem enn er óunninn) til undirbúnings fyrir fjallið sem fær þann heiður að vera númer 10. Það er Skessuhornið sem fær þann heiður.
 
Búrfell:

Búrfell við fórum á,
léttir, með lipra tá.
Nú er það fellið frá,
annað þá ganga má.

Á bloggið, það pláss skal fá,
þar sögu og myndir sjá,
af görpunum tveim plús þrjá…
…sem Búrfellið fóru á!


GPS Myndirnar:



Comments

Alfred said…
Frábær texti og góðir djókar. Vitiði ekki um hið góða yfirlestrar forrit sem við getum notað? Enn nokkuð um innsláttar- og stafsetningarvillur :-( En vel skemmtilegt blogg.
Andrés said…
´´´´´´´´Ég er með Púkann í vélinni minni...

Popular posts from this blog

Lali og Reykjaborg

Stutt gönguæfing var tekin 1. júlí sem liður í undirbúningi fyrir Leggjabrjót sem stefnt er á að ganga um helgina. Mættir voru 2 garpar úr klúbbnum að þessu sinni, Andrés og Sveinn. Júlli gönguhundur er í sjúkraleyfi og Alfreð var löglega afsakaður vegna vinnutarnar. Mynd fengin af www.ja.is/kortavefur Lagt var af stað frá malarstæði við húsið Hvoll rétt við Reykir og Suður-Reykir í botni Mosfellsbæjar og gengið eftir hestastíg meðfram Uxamýri. Síðan var beygt snarlega af leið og haldið upp á Hádegisfell og þaðan yfir Borgardal og stefnan tekin á hnúkinn Lala (244 m). Gott útsýni er af honum yfir sveit og byggð og gaman að koma á nýja staði og sjá hlutina í allt öðru og nýju ljósi. Eftir stutt stopp og spjall var gengið í átt að Bjarnarvatni og beygt upp á Reykjaborg. Þegar hér var komið var langt liðið á kvöld og því ákveðið að menn væru í góðu formi fyrir Leggjabrjótinn. Því var tekin bein lína í átt að Mosfellsbæ og gengið að bílastæðinu. Engin var tekin kaffistofan enda fáliðað í

Að leggja, Vörðuskeggja!

Sunnudaginn 10. maí var lagt af stað frá Grafarvoginum áleiðis upp á Hafravatn þaðan sem leið lá á Nesjavallaveg áleiðis í Dyradal. Nú skyldi tekið á því og Vörðuskeggi kláraður enda sat það enn í félagsmönnum OFAR þegar að frá varð að hverfa þegar reynt var við hann í febrúar síðastliðnum. Mikil stemming var í hópnum enda 4 meðlimurinn, Birgir, mættur á svæðið í sína fyrstu ferð með klúbbnum og að auki voru Ellen og Stefnir líka með og auðvitað Júlli fjallagarpur. Veður var ágætt á láglendi þegar á bílastæðið við Dyradal var komið en þungbúið og hálfsvalt yfir og skýjað í fjalli þannig að göngufólk klæddi sig vel upp áður lagt yrði af stað. Síðan var strikið tekið yfir veginn og haldið af stað í áttina að Vörðuskeggja. Ekki var löng ganga að baki þegar að Andrés fann „…höfuð af hrúti, hrygg og gæruskinn“ eins og segir í laginu um krumma kallinn og krunkaði hann á hina göngugarpana til að skoða gripinn. Voru teknar myndir í minningarbókina um fallin félaga í fjallaferðum enda íslenskar

Gengið á Vífilsfell í blíðskaparveðri

3D mynd af gönguleiðinni ( Google Earth! ) Gönguhópurinn Ofar tók sig saman og gekk á Vífislfellið í dag. Í för voru Sveinn, Andrés, Alfred og Júlli kallinn - en þetta er allir meðlimir félagsins eins og er. Fleiri vinir höfðu verið kallaðir til en náðu ekki á fætur áður en lagt var í'ann. Enda var lagt á stað eldsnemma eða um 10 leitið ofan úr Breiðholti :-) Andrés, Sveinn og Júlli í pásu á leiðinni upp : Keyrt var úr bænum á forláta Mitsubishi Colt í eigu Andrésar. Bensínið í botn og þrusað í suðaustur átt þar sem við vissum að við ættum að beygja til hægri næstu beygju eftir Bláfjallarafleggjaranum. En þegar þangað var komið vorum við samt ekki vissir um hvort við værum á réttum stað - sumir þóttust þekkja LÍV-R skiltið og að þar með hlytum við að vera á réttum stað :-) Við keyrðum áfram eftir afleggjaranum og Coltinn stóð sig eins og hetja þótt dálítill snjór væri á veginum. Þegar í námurnar við enda afleggjarans var komið ákváðum við að snúa við og finna besta staðinn til að