Skip to main content

Á maganum upp Helgafell

3D mynd af gönguleiðinni (Google Earth!)

Jæja, eftir að hafa misst úr síðustu helgi þá var farið af stað enn og einu sinni. Í þetta sinn vorum við bara nokkuð mörg, alls voru mætt Andrés og Júlli, Sveinn og Stefnir og Alfred og Ellen. Við höfðum ætlað okkur að fara í göngu aðra hverja helgi en slepptum síðustu helgi vegna þess að Andrés hafði farið í aðgerð sem hafði með öndunarveginn að gera. Einnig vegna þessa þá var ákveðið að fara stutt og á frekar lágt fjall - á endanum varð Helgafellið í Hafnafjarðarhrauninu fyrir valinu.

Hópmynd á toppi Helgafells:


Leiðin sem við ætluðum að fara í dag var þessi:



Leiðin sem við fórum var þessi:



Ekki nema vona að úrið væri sífellt pípandi eitthvað um að við værum á rangri leið :-)

Annars tóku strákarnir Andrés og Sveinn myndir í þessari ferð og hef ég ekki fengið þær til mín enn. Þegar myndirnar eru komnar í hús þá mun ég klára textann en þangað til verðið þið bara að njóta GPS skrárinnar sem ég er nú búinn að setja á Wikiloc - sjá hlekkinn hér til hægri.

Upphaflega ætluðum við að ganga á Húsfellið en á leiðinni upp í Kaldársel þá skipti Andrés um skoðun - dagsformið var gott og ákveðið að fara á næsta fjall við, Helgafellið, sem er dálítið hærra. Það er stutt keyrsla upp í Kaldársel í Hafnarfirði svo við vorum fljót þangað.

Húsfell (fellið sem við fórum ekki á):


Í þetta sinn hafði GPS leiðin verið niðurhöluð í Garmin úrið og átti að vera ekkert mál að fylgja því - enda ör sem bendir þangað sem ganga skal. Þegar við stigum út úr bílnum og hófum gönguna var hins vegar lagt af stað í þveröfuga átt við það sem úrið benti. Lærum við ekki neitt? Munum við ekki eftir ferðinni uppá Hengil? Hvað með það - göngugörpum Ofar hópsins fannst vera augljóst hvert ganga skildi, sama hvað úrið segði. Enda hlaut úrið að átta sig og á endanum myndum við lenda inn á sömu braut og hlaðin hafði verið á úrið. Það gerðist hins vegar ekki, alla leiðina benti úrið beint til baka - úrið var víst eitthvað svekkt yfir að við skildum ekki hafa fylgt leiðinni sem ákveðin hafði verið og vildi því að við byrjuðum uppá nýtt. Af ofangreindum tveimur myndum má sjá hversu mikill munur er á leiðinni sem í úrinu var og svo þeirri leið sem við gengum. Næst ætlum við að fylgja úrinu betur, er það ekki strákar? Sjáum til hvernig það gengur :-)

Panorama mynd af Helgafelli:


Á leiðinni lentu unglingarnir Stefnir og Ellen í sínum eigin ógöngum. Stefnir missti til að mynda vettlinginn sinn og þurfti að rekja sig til baka þar til hann fannst. Ellen fékk að halda í Júlla og notaði hann náttúrulega tækifærið og þaut af stað. Ellen lyftist upp, flaug nokkra metra og lenti svo á maganum á snjónum og dróst á eftir hundinum. Frekar fyndið. Áður en gengið er á fjallið komum við svo að dálítilli mýri sem hafði frosið yfir - en ekki alveg nógu mikið samt - enda duttum við í gegn nokkrum sinnum en enginn blotnaði neitt af viti. Stefni tókst þó að stíga í gjótu eða eitthvað, lyfta fætinum upp og þá var skórinn rifinn þvert yfir ristina svo sokkaðar tærnar stóðu beint upp í vindinn. Úr plastpokanum var því Sæmundur (mjólkurkex) rifinn og pokanum skellt á tærnar og héldum við svo ótrauð áfram.

Það var dálítill vindur og haglél en samt ekkert óveður svo við vorum fljótlega komin á toppinn og skrifuðum þar í gestabókina. Þar uppi gengum við smá hring og svo niður aftur. Breyttum aðeins leiðinni og fórum niður skemmtilegt gil og smá bratta. Ekkert hættulegt þó, bara gaman. Þegar við vorum komin niður þá voru allir sammála um að þetta hefði verið of létt - Andrési leið vel og var ákveðinn í að bæta vel í að 2 viknum liðnum.



Að lokum var keyrt í Hrímfaxa í Heimsenda í þeirri von að Júlli mætti fara þar inn með okkur í kaffisopa. Þegar þangað var komið var annar hundur þar sem varði sitt svæði vel. Eftir að hundunum hafði lent saman var ljóst að heimalingurinn yrði í bandi á meðan á heimsókn okkar stæði og Júlli kallinn var hafður frammi á gangi. Þarna fengum við mannfólkið þó sitthvað heitt í kroppinn, skonsur, flatkökur og hjónabandssælu.

Að því loknu voru allir sáttir og keyrt heim á leið.

Hinn hagmælti meðlimur gönguhópsins, Andrés samdi og sendi okkur þetta ljóð:

Þættinum hefur borist ljóð

Á Helgafell við hófum ferð,
hópur hress og heitur.
Gönguferð af bestu gerð,
glæstar fjallageitur.

Upp á fell við fljót flugum,
firnasterk og fim.
Upp um gil og grjót smugum,
við veðragnauðsins glym.

Stolt á toppi stóðum öll,
um stund við andann drógum.
Gleðistund og hlátrasköll,
já, mikið sem við hlógum!

Niður snögg við vorum svo
í svigi niður hlíðar.
Á annað fjall við förum sko,
áköf innan tíðar!

Andrés tók líka myndir á leiðinni:

Þegar áð var á miðri leið gáðu Alfred og Ellen að nestinu:


Júlli þarf auðvitað að fá eitthvað líka:


Fallegt hvernig snjórinn hefur fokið í sandsteininn:


Sumir fóru nú bara upp í gallabuxunum þótt kalt væri:


Hvar eru sparifötin, Sæmundur?


Fallegt yfir að líta:


Ellen með kassan utan af gestabókinni:


Alfred skrifar í gestabókina:


Stefnir kominn á toppinn:


Fallegt yfir að líta II:


Alfred, Ellen og Júlli:


Alfred, Ellen og Júlli II:


"Fallegt" útsýni:


Allir nema Sveinn (gettu hvar hann var :-)


Ellen uppi á Helgafelli:


Skemmtilegur sandsteinninn:


Kex á leiðinni upp:


3D mynd af leiðinni:

Comments

Popular posts from this blog

Lali og Reykjaborg

Stutt gönguæfing var tekin 1. júlí sem liður í undirbúningi fyrir Leggjabrjót sem stefnt er á að ganga um helgina. Mættir voru 2 garpar úr klúbbnum að þessu sinni, Andrés og Sveinn. Júlli gönguhundur er í sjúkraleyfi og Alfreð var löglega afsakaður vegna vinnutarnar. Mynd fengin af www.ja.is/kortavefur Lagt var af stað frá malarstæði við húsið Hvoll rétt við Reykir og Suður-Reykir í botni Mosfellsbæjar og gengið eftir hestastíg meðfram Uxamýri. Síðan var beygt snarlega af leið og haldið upp á Hádegisfell og þaðan yfir Borgardal og stefnan tekin á hnúkinn Lala (244 m). Gott útsýni er af honum yfir sveit og byggð og gaman að koma á nýja staði og sjá hlutina í allt öðru og nýju ljósi. Eftir stutt stopp og spjall var gengið í átt að Bjarnarvatni og beygt upp á Reykjaborg. Þegar hér var komið var langt liðið á kvöld og því ákveðið að menn væru í góðu formi fyrir Leggjabrjótinn. Því var tekin bein lína í átt að Mosfellsbæ og gengið að bílastæðinu. Engin var tekin kaffistofan enda fáliðað í

Að leggja, Vörðuskeggja!

Sunnudaginn 10. maí var lagt af stað frá Grafarvoginum áleiðis upp á Hafravatn þaðan sem leið lá á Nesjavallaveg áleiðis í Dyradal. Nú skyldi tekið á því og Vörðuskeggi kláraður enda sat það enn í félagsmönnum OFAR þegar að frá varð að hverfa þegar reynt var við hann í febrúar síðastliðnum. Mikil stemming var í hópnum enda 4 meðlimurinn, Birgir, mættur á svæðið í sína fyrstu ferð með klúbbnum og að auki voru Ellen og Stefnir líka með og auðvitað Júlli fjallagarpur. Veður var ágætt á láglendi þegar á bílastæðið við Dyradal var komið en þungbúið og hálfsvalt yfir og skýjað í fjalli þannig að göngufólk klæddi sig vel upp áður lagt yrði af stað. Síðan var strikið tekið yfir veginn og haldið af stað í áttina að Vörðuskeggja. Ekki var löng ganga að baki þegar að Andrés fann „…höfuð af hrúti, hrygg og gæruskinn“ eins og segir í laginu um krumma kallinn og krunkaði hann á hina göngugarpana til að skoða gripinn. Voru teknar myndir í minningarbókina um fallin félaga í fjallaferðum enda íslenskar

Hvellir við Hvalfell

VIÐBÓT 1.12.2009 : FLEIRI MYNDIR ÚR FERÐINNI HÉR! Ætlunin hafði verið að fara yfir Skarðsheiðina og upp á Skessuhorn þessa helgina en sökum forfalla í Gönguklúbbnum Ofar var ákveðið að fresta því til betri tíðar. Í staðinn var ákveðið að nota hið góða veður sem spáð hafði verið (og stóðst líka svona vel) og skella sér þess í stað upp á Glym og þaðan upp á Hvalfellið . Að þessu sinni voru það Andrés, Alfreð og Reynir sem hittust á formlegum mótstað klúbbsins í Grafarvogi og var lagt af stað kl. 09.07 stundvíslega áleiðis í Hvalfjörðinn. Þar var áð stuttlega í sumarbústað hvar Júlli nokkur ferfætlingur lá í mestu makindum og hafði það huggulegt. Nú skyldi garpurinn fá að koma með og spretta úr spori. Veglegt morgunverðarhlaðborð beið ferðalanganna og var tekið hraustlega til matar og skellt í sig kaffifant eða tveim enda veitti ekki af allri orku fyrir ferðina. Eftir góðar trakteringar var brunað í botn Hvalfjarðar og bílnum lagt á bílastæðinu við bæinn Stóra Botn. Þaðan var lagt