Skip to main content

Gengið á Vífilsfell í blíðskaparveðri

3D mynd af gönguleiðinni (Google Earth!)

Gönguhópurinn Ofar tók sig saman og gekk á Vífislfellið í dag. Í för voru Sveinn, Andrés, Alfred og Júlli kallinn - en þetta er allir meðlimir félagsins eins og er. Fleiri vinir höfðu verið kallaðir til en náðu ekki á fætur áður en lagt var í'ann. Enda var lagt á stað eldsnemma eða um 10 leitið ofan úr Breiðholti :-)

Andrés, Sveinn og Júlli í pásu á leiðinni upp:


Keyrt var úr bænum á forláta Mitsubishi Colt í eigu Andrésar. Bensínið í botn og þrusað í suðaustur átt þar sem við vissum að við ættum að beygja til hægri næstu beygju eftir Bláfjallarafleggjaranum. En þegar þangað var komið vorum við samt ekki vissir um hvort við værum á réttum stað - sumir þóttust þekkja LÍV-R skiltið og að þar með hlytum við að vera á réttum stað :-)

Við keyrðum áfram eftir afleggjaranum og Coltinn stóð sig eins og hetja þótt dálítill snjór væri á veginum. Þegar í námurnar við enda afleggjarans var komið ákváðum við að snúa við og finna besta staðinn til að leggja af stað í hlíðina. Svo var bara gengið beint á fjallið. Létt framan af en fljótt fór að verða brattara og rokið að aukast.

Andrés og Alfred á toppnum:


Á miðri leiðinni upp ákváðum að ganga þvert yfir snæviþakkinn dal í hlíðinni. En þegar við stóðum í hlíðinni og ræddum málið þá tók dalurinn hreinlega að skríða. Þarna stóðum við vinirnir og urðum vitni að snjóskriðu og það get ég sagt ykkur er eitthvað til að upplifa. Ótrúlegt hversu hljóðlát skriðan var og hversu litlu munaði að við hefðum verið í miðjum dalnum þegar hún féll. Það hefði samt ekki verið neitt sérstaklega hættulegt því þetta var örugglega ekki stærsta snjóskriða sem hefur fallið. Ætli hún hafi fallið vegna látanna í okkur þegar við vorum að taka mynd og þurftum að fá Júlla til að vera kyrrann? - Nnnaaahhh :-)



En áfram með smjörið; þegar við komum upp þessa fyrstu hlíð þá tók við dálítil flatneskja og þar var bara logn. Þrír okkar gengu eftir henni í ró og næði en Júlli hljóp auðvitað um allt og það var alveg sama hvað við lengdum eða styttum í bandinu hjá honum, alltaf var það strekkt. En þarna var logn og við fengum góða mynd af því að við værum bara hálfnaðir eða jafnvel minna :-)

Eftir flatneskjuna tók við brattari hlíð og klifum við hana með hraði eins og harðjaxlarnir sem við erum. Þegar upp hana var komið þá tók við ganga í töluverðu roki en sól og fallegu, endalausu útsýni þar sem sást svo til um allan suðvesturhluta landsins. Við gengum þarna í snjó, grjóti og klaka eftir hryggnum að síðusta hækkuninni uppá topp.

Júlli á toppnum:


Það voru smá klettar þarna efst sem við þurftum að klífa en það var algjörlega þess virði því að standa á toppnum var frábært. Þarna var skífa sem vísaði til áhugaverðra fjalla og sáust öll fjöllin snæviþakin í kringum okkur enda veðrið ótrúlegt. Þarna skáluðum við félagarnir í heimatilbúnum orkudrykk og tókum myndir og hófum svo niðurgönguna.

Niðurgangan var ekkert mál og gekk mjög hratt fyrir sig enda gátum við rennt okkur í snjónum og var þetta hin mesta skemmtun. Þegar við vorum rúmlega hálfnaðir niður þá rákumst við á gönguhóp frá Capacent og ræddum við örlítið við kunningja í hópnum. En þegar í bílinn var komið var brunað beint í Litlu kaffistofuna.

Hæðarlínurit:


Litla kaffistofan bauð uppá rúllupylsu, hangikjöt, samlokur, rjómapönnukökur og kakó með rjóma. Semsagt töluvert af orkunni sem í Vífilsfellið fór var innbyrgð aftur áður en komið var í bæinn :-)

Við mælum með Vífilsfellinu, en það var erfiðara en við höfðum reiknað með - kannski því þetta er að vetrarlagi og snjór og ís gert þetta erfiðara, veit ekki! En félagi ferðarinnar var Andrés sem stóð sig eins og hetja og gafst ekki upp þótt á móti hafi blásið og á brattann hafi verið að sækja :-)

Eitt ljóð svona fyrir Andrés, sem hefur sérstakan áhuga á slíku:



...
Göngumannsins freista fjöllin há
er frelsisins í náttúrunni leitar.
Hann vill ætíð hæsta tindi ná
hugdjarfur klífur þverhnípt björgin blá,
blik í augum, afl er í taugum.
...

Hákon Aðalsteinsson
1935-

Úr bókinni Imbra.
Hörpuútgáfan, 2002.
Allur réttur áskilinn höfundi.

Þetta er bara hluti af ljóðinu svo, Andrés, ef þú vilt lesa þetta allt þá bendi ég þér á Ljóð.is og kannski væri ekki vitlaust fyrir þig að dæla þínum eigin ljóðum þarna inn. Hvers vegna ekki?

Að lokum eru hér nokkrar myndir í viðbót:

Vífilsfell á korti:


Vífilsfellið frá Reykjavík:


Vífilsfellið frá öðru sjónarhorni:


Sveinn og Alfred á leiðinni upp:


Andrés og Alfred á leiðinni upp:


Alfred og Sveinn á toppnum:


Andrés og Sveinn á toppnum:


GPS kortin:






Comments

Unknown said…
Við Cappar urðum nú ekkert sérstaklega vör við þetta logn sem þið töluðuð um á "sléttunni". En þetta var skemmtileg og krefjandi ganga (ég þurfti allavega að fá mér smá power-nap þegar heim var komið).

Kveðjur, ke

Popular posts from this blog

Lali og Reykjaborg

Stutt gönguæfing var tekin 1. júlí sem liður í undirbúningi fyrir Leggjabrjót sem stefnt er á að ganga um helgina. Mættir voru 2 garpar úr klúbbnum að þessu sinni, Andrés og Sveinn. Júlli gönguhundur er í sjúkraleyfi og Alfreð var löglega afsakaður vegna vinnutarnar. Mynd fengin af www.ja.is/kortavefur Lagt var af stað frá malarstæði við húsið Hvoll rétt við Reykir og Suður-Reykir í botni Mosfellsbæjar og gengið eftir hestastíg meðfram Uxamýri. Síðan var beygt snarlega af leið og haldið upp á Hádegisfell og þaðan yfir Borgardal og stefnan tekin á hnúkinn Lala (244 m). Gott útsýni er af honum yfir sveit og byggð og gaman að koma á nýja staði og sjá hlutina í allt öðru og nýju ljósi. Eftir stutt stopp og spjall var gengið í átt að Bjarnarvatni og beygt upp á Reykjaborg. Þegar hér var komið var langt liðið á kvöld og því ákveðið að menn væru í góðu formi fyrir Leggjabrjótinn. Því var tekin bein lína í átt að Mosfellsbæ og gengið að bílastæðinu. Engin var tekin kaffistofan enda fáliðað í

Að leggja, Vörðuskeggja!

Sunnudaginn 10. maí var lagt af stað frá Grafarvoginum áleiðis upp á Hafravatn þaðan sem leið lá á Nesjavallaveg áleiðis í Dyradal. Nú skyldi tekið á því og Vörðuskeggi kláraður enda sat það enn í félagsmönnum OFAR þegar að frá varð að hverfa þegar reynt var við hann í febrúar síðastliðnum. Mikil stemming var í hópnum enda 4 meðlimurinn, Birgir, mættur á svæðið í sína fyrstu ferð með klúbbnum og að auki voru Ellen og Stefnir líka með og auðvitað Júlli fjallagarpur. Veður var ágætt á láglendi þegar á bílastæðið við Dyradal var komið en þungbúið og hálfsvalt yfir og skýjað í fjalli þannig að göngufólk klæddi sig vel upp áður lagt yrði af stað. Síðan var strikið tekið yfir veginn og haldið af stað í áttina að Vörðuskeggja. Ekki var löng ganga að baki þegar að Andrés fann „…höfuð af hrúti, hrygg og gæruskinn“ eins og segir í laginu um krumma kallinn og krunkaði hann á hina göngugarpana til að skoða gripinn. Voru teknar myndir í minningarbókina um fallin félaga í fjallaferðum enda íslenskar

Hvellir við Hvalfell

VIÐBÓT 1.12.2009 : FLEIRI MYNDIR ÚR FERÐINNI HÉR! Ætlunin hafði verið að fara yfir Skarðsheiðina og upp á Skessuhorn þessa helgina en sökum forfalla í Gönguklúbbnum Ofar var ákveðið að fresta því til betri tíðar. Í staðinn var ákveðið að nota hið góða veður sem spáð hafði verið (og stóðst líka svona vel) og skella sér þess í stað upp á Glym og þaðan upp á Hvalfellið . Að þessu sinni voru það Andrés, Alfreð og Reynir sem hittust á formlegum mótstað klúbbsins í Grafarvogi og var lagt af stað kl. 09.07 stundvíslega áleiðis í Hvalfjörðinn. Þar var áð stuttlega í sumarbústað hvar Júlli nokkur ferfætlingur lá í mestu makindum og hafði það huggulegt. Nú skyldi garpurinn fá að koma með og spretta úr spori. Veglegt morgunverðarhlaðborð beið ferðalanganna og var tekið hraustlega til matar og skellt í sig kaffifant eða tveim enda veitti ekki af allri orku fyrir ferðina. Eftir góðar trakteringar var brunað í botn Hvalfjarðar og bílnum lagt á bílastæðinu við bæinn Stóra Botn. Þaðan var lagt